Túristar í Tjernóbyl

Hátt í átta þúsund ferðamenn heimsóttu Tjernóbyl á síðasta ári.  Aldarfjórðungi eftir hið hræðilega kjarnorkuslys.

Yfirgefinn skemmtigarður í nágrenni við Tjernóbyl kjarnorkuverið

Í dag mælist geislavirknin á svæðinu í kringum þetta alræmda kjarnorkuver rúmlega þrjátíu sinnum meiri en það sem eðlilegt þykir. Ferðamenn sem vilja fara inn á þetta lokaða svæði verða því að gefa skriflegt loforð þess efnis að þeir muni ekki snerta á neinu, ekki setjast á jörðina og hvorki borða né reykja utandyra. Það er því ekki að undra að tímaritið Forbes telji Tjernóbyl einn af óvenjulegustu ferðamannastöðum í heimi.

Meðal þess sem sem fólk fær að sjá í túrnum um geislavirka svæðið eru draugabæirnir Kopachi og Pripyat þar sem allir fimmtíu þúsund íbúarnir voru fluttir á brott daginn eftir slysið árið 1986. Þar hefur ekki verið hreyft við neinu síðan þá og bærinn ágætis minnisvarði um lífið í Sovétríkjunum.

Þeir sem eru á leið til Kiev á næstunni og langar að sjá hörmungasvæðið með eigin augum geta bókað ferð á heimasíðunni tour2kiev.com. Ferðin kostar 160 dollara sem jafngildir tæpum tuttugu þúsund íslenskum krónum.

NÝJAR GREINAR: Ódýrasta leiðin til og frá tíu flugstöðvum
TILBOÐ: 
Gistihús og hótelíbúðir í London frá 99 pundum

Mynd: borderfilms / Creative Commons