Besta breska hótelið fyrir klink

Síðustu tvö ár hafa lesendur The Guardian í Bretlandi valið Hoxton hótelið í London það besta þar í landi. Þeir sem eru heppnir og bóka snemma borga bara eitt pund fyrir nóttina.

 

Í hinu vinsæla Shoreditch hverfi, rétt við Old Street og Liverpool Street lestarstöðvarnar, er hið huggulega Hoxton hótel til húsa. Þetta er ekki lúxus hótel enda ólíklegt að kjarninn í lesendahópi The Guardian sé með vasa fulla fjár. Standardinn er þó hár og prísarnir á færi flestra. 

Síbreytileg verð

Með reglulegu millibili gefst áskrifendum að fréttabréfi hótelsins færi á að bóka gistingu á eitt pund. Algengara er þó að gestirnir borgi í kringum hundrað pund fyrir nóttina en það er ekki á vísan að róa með verðið frekar en hjá flugfélögunum enda breytast þau í takt við eftirspurnina. 

Marglofað og heimilislegt

Hoxton er nýmóðins hótel að því leiti að þar er ýmislegt reynt til að líkjast ekki hinum hefðbundnu keðjuhótelum. Stíllinn er því persónulegur og heimilislegur.

Þessi blanda af óhefðbundinni verðskrá og sérviskulegum umbúðum fer vel í gestina ef marka má lesendaverðlaun The Guardian og lofræðurnar á Tripadvisor síðunni.

NÝJAR GREINAR: Ódýrasta leiðin til og frá tíu flugvöllum
TILBOÐ: 
Gistiheimili og hótelíbúðir í London

Myndir: The Hoxton Hotel