Bílaleigubíll á einn dollara á dag

Í borgum eins og Seattle og Portland er hægt að leigja bíl fyrir klink þessa dagana. En aðeins ef ferðinni er heitið suður á bóginn.

Aðal ferðamannatíminn er senn á enda í norðvesturhluta Bandaríkjanna og tímabært að ferja bílaleigubílana þaðan. Ferðamönnum bjóðast því ákaflega góð kjör á bílum þessa dagana í borgum eins og Seattle og Portland. Leigunni fylgir þó það skilyrði að bílnum verði skilað í einni af vinsælustu ferðamannaborgunum í suðvesturhluta landsins, til dæmis Los Angeles, San Diego, San Francisco og Las Vegas.

Leigan hjá bílaleigunni Thrifty er til að mynda einn dollari á dag fyrir þá sem vilja keyra milli þessara borga en alla jafna er prísinn rúmlega tuttugu dollarar. Þess ber þó að geta að tryggingargjald sem nemur níu til tuttugu og fimm dollurum á dag bætist við leiguverðið.

Samkvæmt frétt Politiken er von á sambærilegum tilboðum á næstunni fyrir þá sem vilja heldur keyra í suður meðfram austurströnd Bandaríkjanna.

LEIGÐU BÍLALEIGUBÍL HÉR

Mynd: Wikicommons