Hamborgari í heimsborginni

Heimsókn á skyndibitastað tilheyrir almennilegri Ameríkureisu. Hamborgarabúllur Shake Shack eru fínn kostur fyrir þá sem vilja gæða sér á þjóðarrétti Bandaríkjamanna.

Vestanhafs hafa menn eytt miklum tíma og orku í að búa til góða hamborgara. Þrátt fyrir það eru mörgum kokkum á svæðinu mislagðar hendur þegar kemur að þessum fræga skyndibita. Það er því ekki á vísan að róa með góðan hamborgara í bandarískri borg frekar en framúrskarandi smurbrauð í Danmörku eða úrvals snitsel í Austurríki.

Á hamborgarstöðum Shake Shack geta ferðamenn í New York þó verið nokkuð öruggir með að fá afgreiddan alvöru bandarískan borgara og mjólkurhristing. Ekki skemmir fyrir að Angus bolinn sem liggur í mjúkri brauðbollunni hefur ekki fengið hormónasprautur líkt og svo margir nautgripir fá vestanhafs.

Fyrir rétt hússins, einfaldan Shake borgara, borgar fólk fjóra til fimm dollara (tæpar 500 íslenskar krónur) og örlítið meira fyrir sjeik. Verðið er mismunandi eftir stöðum en einn fullorðinn ætti að verða ágætlega mettur fyrir þúsund íslenskar krónur.

Shake Shack er að finna á níu stöðum í New York.

NÝJAR GREINAR: Hótelverð lækkaði mest hér á landi
TENGDAR GREINAR: Einföld gisting í flottum umbúðum – New York
TILBOÐ:
Gistiheimili og hótelíbúðir í London frá 99 pundum

Myndir: Shake Shack