Netsamband í þriðju hverri farþegavél

Flugfarþegar vestanhafs geta víða stytt sér stundir í háloftunum með því að fara á netið. Í Evrópu verður SAS flugfélagið fyrst til að bjóða upp á nettengingu á meðan keppinautarnir bíða átekta, þar á meðal íslensku félögin.

Það er boðið upp á þráðlaust netsamband í rúmlega þúsund farþegavélum í Bandaríkjunum, eða þriðjungi flugflotans þar í landi samkvæmt frétt Computer World. Það er fyrirtækið Gogo sem stendur fyrir tengingunni við vélarnar og borga farþegarnir um fimm dollara fyrir þjónustuna í styttri flugum en tæpa 13 dollara (um 1.450 krónur) ef ferðalagið tekur meira en þrjá tíma. Flest af stærstu flugfélögunum vestanhafs bjóða upp á þessa þjónustu en þeirra stórtækast er Virgin America því hún er í boði í öllum flugum fyrirtækisins.

Frítt net fyrir þá með dýru farmiðana

Í Evrópu hefur þróunin ekki verið eins hröð. Þó dróg til tíðinda fyrr í þessum mánuði þegar SAS tilkynnti að hluti af vélum félagsins yrði útbúinn þráðlausu neti í vor. Skandinavíska flugfélagið verður þar með fyrst til að bjóða upp á þjónustuna, jafnt í stuttum flugum innan Evrópu sem og í lengri ferðum milli heimsálfa, samkvæmt frétt Politiken. Þeir farþegar SAS sem kaupa dýrustu sætin munu ekkert borga fyrir þessa nýjung á meðan aðrir verða að greiða aukalega. Hið þýska Lufthansa hefur uppi svipuð áform og SAS þó tímasetningarnar séu ekki á hreinu.

Hér á Íslandi er ekki útlit fyrir að flugfélögin netvæðist á næstunni. Við hjá Icelandair fylgjumst grannt með þróuninni á þessu sviði og höfum gert um árabil. Tækninni við að tryggja öruggt netsamband yfir úthöfunum fleygir fram og búnaðurinn hefur verið að lækka í verði. Sú þróun mun örugglega halda áfram. Við skoðum líka vel hvað stóru flugfélögin eru að gera og hverjar óskir og kröfur viðskiptavina eru. En við höfum ekki tekið ákvörðun um að bjóða nettenginu í vélum okkar“, segir Guðjón Arngrímssson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hjá Iceland Express eru engar áætlanir uppi um að innleiða þessa þjónustu.

NÝJAR GREINAR: Spánn fyrir vínáhugafólk – Besta breska hótelið fyrir klink
TILBOÐ: Ódýrt hótel í Kaupmannahöfn 

Mynd: SAS