Á 240 kílómetra hraða í rússíbana

Ferrari skemmtigarðurinn í Abu Dhabi opnaði í vikunni og þar bíður kjarkaðra ferðamanna mikil þeysireið.

Ferrari World skemmtigarðurinn, sem opnaði í vikunni, er lýsandi fyrir þann metnað sem furstarnir í Abu Dhabi hafi fyrir hönd ferðaþjónustunnar þar í landi. Ferrari World mun nefnilega vera stærsti innanhús skemmtigarður í heimi og þar er að finna hraðskreiðasta rússíbana í heimi. Sá kallast Formula Rossa og nær hundrað kílómetra hraða á aðeins tveimur sekúndum og hámarkshraðanum, 240 kílómetra hraða, á 4,9 sekúndum. 

Framkvæmdir við skemmtigarðinn hafa staðið yfir í fjögur ár en hann stendur við hliðina á kappakstursbraut furstadæmisins á eyjunni Yas. Áhugafólk um akstursíþróttir mun væntanlega fjölmenna þangað í framtíðinni á meðan listunnendur sigla til nágrannaeyjunnar, Saadiyat, þar sem útibú frá listasöfnunum Louvre og Guggenheim munu opna í nánustu framtíð.

NÝJAR GREINAR: Ekkert fjölskylduhótel
TILBOÐ: Ódýrt hótel í Kaupmannahöfn

Myndir: Ferrari World

 

Bookmark and Share