Easyjet fær sína eigin flugstöð

Í gær fóru fyrstu farþegarnir um nýjan hluta Kastrupflugvallar sem er ætlaður lággjaldaflugfélögum. Aðeins Easyjet vill nota aðstöðuna.

Það er ekkert parket á gólfunum og ekki neinar verslanir eða veitingastaðir í nýjustu álmunni á Kastrupflugvelli sem kallast CPH-Go og opnaði í gær. Þar eru ekki heldur landgangar og því verða farþegarnir að fara út á flugbraut til að komast um borð í vélarnar.

Með þessari látlausu umgjörð vonast forsvarsmenn flugvallarins til að Kaupmannahöfn komist á kortið hjá fleiri lággjaldaflugfélögum.

Þessar væntingar virðast ekki ætla að rætast því aðeins Easyjet ætlar sér að nota aðstöðuna til að byrja með. Hin lággjaldafélögin á Kastrup vilja ekkert með CPH-Go hafa og Ryanair féll nýverið frá áformum sínum um að fljúga til dönsku höfuðborgarinnar. Það verður því tómlegt um að litast í þessari nýju álmu fyrst um sinn.

NÝJAR GREINAR: Edinborg uppáhaldsborg Breta Þráðlaust net í þriðjungi farþegavéla
TILBOÐ: 10% afsláttur á ódýrt hótel í Kaupmannahöfn

Mynd: Kaupmannahafnarflugvöllur