Flestir setja stefnuna á Kaupmannahöfn

Það eru margir Íslendingar sem hyggja á ferðalag til Kaupmannahafnar á næstunni því borgin er sá áfangastaður sem flestir leita að flugi til á flugleitarvélinni Dohop.  Bangkok og Hanoi eru líka lokkandi í hugum landans.

Það sannast hið forkveðna, að römm er sú taug, þegar listinn yfir þá staði sem Íslendingar leita oftast eftir flugum til er skoðaður. Gamla höfuðborgin okkar, Kaupmannahöfn, er nefnilega sú borg sem hugur flestra Íslendinga leitar til, ef miðað er við vinsældarlista Dohop flugleitarsíðunnar í nóvember.

Ástæðan fyrir aðdráttarafli Kaupmannahafnar um þessar mundir gæti verið sá fjöldi Íslendinga sem þar býr og eins hafa verslanirnar við Strikið sitt að segja. Heimsborgirnar London og New York skipa annað og þriðja sætið á lista Dohop.

Margir ætla í langferð

Það vekur athygli að Bangkok í Taílandi skuli komast í fjórða sætið og Hanoi í Víetnam í það sjötta. Það er því greinilegt að hér á landi er fjöldi fólks sem ætlar sér að fara langt út í heim á næstunni og borgirnar í Eyjaálfu eru sömuleiðis vinsælar.

Hér er listinn yfir þær borgir sem íslenskir notendur Dohop leituðu oftast að flugmiðum til í nóvember:

  1. Kaupmannahöfn
  2. London
  3. New York
  4. Bangkok
  5. Orlando
  6. Hanoi
  7. Alicante
  8. Ósló
  9. Frankfurt am Main
  10. Las Palmas
  11. Tenerife
  12. Amsterdam
  13. Buenos Aires
  14. Boston
  15. Milan
  16. Róm
  17. Auckland
  18. Sydney
  19. Madrid
  20. Berlín

TILBOÐ: Ódýrt hótel í Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR: Íslendingar á heimavelli á Jótlandi

Mynd: Wonderful Copenhagen

Bookmark and Share