Í landi danskra rússíbana

Það er aðeins í útlöndum sem við Íslendingar getum svalað þörfinni fyrir rússíbanareið. Á Jótlandi er nokkur þannig frambærileg tívolítæki að finna.

Eitt af markmiðum flestra í sumarfríinu er að gleyma öllu amstrinu heima fyrir. Fáar leiðir eru jafn árangursríkar til að ná þessu marki eins og að setjast uppí rússíbana. Enda ómögulegt annað en að einbeita sér að núinu þegar maður þeysist hátt upp í loft, í hringi og jafnvel afturábak. Þeir sem hyggja á ferðalag til Danmerkur í sumar og vilja vera öruggir um að ná að kúpla sig út í smástund ættu að gefa Jótlandi auga enda er úrvalið af hraðskreiðum tívolítækjum gott á þeim slóðum.

Sá fimmti besti í heimi

Það kann að skjóta skökku við að í litlum bæ á austurhluta Jótlands, nánar tiltekið Djursland, sé að finna rússíbana sem kjörinn hefur verið sá fimmti besti í heimi. Tækið, sem gengur undir nafninu Piraten, kostaði rúman milljarð íslenskra króna og er það stærsta og hraðskreiðasta sinnar tegundar í Danmörku. Þessi stóra fjárfesting hefur greinilega borgað sig því í sumar ætla þeir í Djursland að taka í gagnið vatnsrússíbana sem mun verða sá stærsti í Evrópu.

Í skógi einum norðan við Álaborg stendur hraðskreiðasti trérússibani landsins. Fårup garðurinn ætti því að vera heimsóknarinnar virði.

Leikið með kubba

Merki Legó er haldið hátt á lofti í bænum Billund eins og sést best í hinum vinsæla skemmtigarði sem kenndur er við kubbaframleiðandann. Fyrir utan hefðbundin tívolítæki er þar að finna verk fólks sem náð hefur mikilli færni í byggja úr Legókubbum. Sá hluti garðsins gefur honum sérstakan sjarma og gerir rússíbanareið ekki eins aðkallandi. Í Lalandia garðinum, sem er í næsta nágrenni við Lególand, er hægt að renna sér niður í mót á sundfötunum einum fata. Sem er ekki síðri leið til að gleyma öllu stressinu heima. 

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við:

 

 

 

TENGDAR GREINAR: Íslendingar á heimavelli á JótlandiKofasæla á Jótlandi
TILBOÐ: Ódýrt hótel í Kaupmannahöfn

Mynd: Visit Danmark / Mads Armgaard