Íslendingar á heimavelli á Jótlandi

Íslendingar verða sennilega áberandi á pöllunum þegar ungmennalandsliðið í knattspyrnu tekur þátt í Evrópumótinu á Jótlandi í sumar.

Hvergi erum við Íslendingar jafn fjölmennir í útlöndum eins og í Danmörku, eða 9095 talsins samkvæmt síðustu talningu þar í landi. Í þessum stóra hópi leynist án efa áhugafólk um fótbolta sem hugsar sér gott til glóðarinnar í sumar þegar Evrópumót landsliða, skipuð ungum mönnum, fer fram á Jótlandi. Og vegna þess hversu góðar flugsamgöngur eru til þessa eina fastalands Dana má reikna með að héðan streymi fólk sem ætlar ekki að láta sjaldgæft tækifæri, til að fylgjast með íslensku knattspyrnulandsliði í úrslitakeppni, framhjá sér fara.

Íslensku fótboltadrengirnir ættu því að fá góðan stuðning í keppninni sem hefst 11. júní. Túristi ætlar af þessum sökum að fókusa á ferðamannastaðinn Jótland næstu misseri enda er af nógu að taka.

LESA LÍKA: Kofasæla á Jótlandi  

Þangað sem danskar fjölskyldur fjölmenna

Byrjunarreitur margra íslenskra ferðamanna á Jótlandi er Billund flugvöllur, en þangað fljúga bæði íslensku flugfélögin í sumar. Þar í nágrenninu eru þrír af vinsælustu skemmtigörðunum í Danmörku, Lególand, Lalandia vatnsrennibrautagarðurinn og Givskud dýragarðurinn. Þangað fjölmenna danskar fjölskyldur á sumrin, sérstaklega til Lególands enda er Legóið eitt af þjóðarstoltum Dana. Heimsókn í skemmtigarðinn er því öllum dönskum börnum nauðsynleg.

Strendurnar á Vesturjótlandi eru líka rómaðar, til dæmis Hvide Sande sem var valinn besta baðströnd landsins síðasta sumar og á svæðinu þar í kring er urmull af sumarhúsum sem ferðamenn geta leigt fyrir brota brot af því sem hótelherbergi, á þessum slóðum, kostar.

Borgirnar í norðurhlutanum

Frá Billund er auðvelt að komast til Álaborgar og Árósa þar sem Íslendingar spila leiki sína í riðlakeppninni. Með lest og strætó er til dæmis hægt að komast beint frá flugvellinum og inn í miðborg Árósa á tveimur tímum. En fyrsti leikur Íslands, gegn Hvítrússum, fer þar fram 11.júní.

Borgirnar eru báðar skemmtilegar heim að sækja og þar er hægt að gera sér glaðan dag án þess að kosta of miklu til, sérstaklega ef veðrið er gott og grænu svæði borganna iða af spennandi mannlífi. 

Það er því fullt tilefni til að gera Jótlandi góð skil í sumar á milli þess sem stutt er við bakið á íslenska landsliðinu.

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við:

 

 

Myndir: Myndasafn KSÍ og Visit Danmark

 

TILBOÐ: Ódýr hótel í Soho, New York