Tíu áhugaverðustu ferðamannalöndin 2011

Skríbentar ferðaritsins Lonely Planet eru ekki í vafa um hvar stærstu upplifanirnar bíða ferðamanna á næsta ári

Það eru sennilega ekki margir hér á landi sem eru búnir að skipuleggja sumarfrí næsta árs. Þeir sem eru opnir fyrir hugmyndum ættu að renna yfir lista Lonely Planet til að sjá hvort þar leynist áfangastaður næsta árs.

Hér er listinn fyrir þau tíu lönd sem eru mest spennandi á næsta ári:

Albanía

Hingað til hafa það helst verið ævintýragjarnir ferðalangar sem eytt hafa fríinu á Balkanskaganum. Núna er hins vegar kominn tími til að fleiri fái notið hinna ósnortnu stranda, matarmenningarinnar, sögufrægu staðanna og gestrisni heimamanna.

Brasilía

Fjármálakrísan hefur ekki plagað Brassana að neinu ráði og efnahagurinn sjaldan verið betri. Landsmenn eru því stórhuga og ætla að hýsa bæði ólympíuleika og heimsmeistarakeppni í fótbolta á næstu árum. Það kallar á miklar fjárfestingar í hótelum og samgöngumannvirkjum sem koma túristum til góða strax á næsta ári.

Grænhöfðaeyjar

Líkt og þeir Íslendingar, sem hafa tekið þátt í þróunarverkefnum á Grænhöfðaeyjum, geta vitnað um skín sólin nær alla daga á þessum eyjaklasa í Atlantshafinu. Það er því ekki skrítið að þar leiti Evrópubúar í auknum mæli skjóls frá kuldabola á veturna. Ferðamannaiðnaðurinn er því í miklum blóma á þessum eldfjallaeyjum.

Panama

Heimamenn í Panama hafa reynt að snúa við blaðinu í kjölfar fjármálakrísunnar. Núna er ekki aðaláherslan lögð á að lokka til landsins ameríska spilasjúklinga heldur frekar fólk sem vill kynnast menningu landsins og njóta nátturunnar.

Búlgaría

Þeir sem eru í leit að ódýrum skíðastað eða strönd þurfa ekki að leita lengra því í Búlgaríu þykir Lonely Planet að fólk fái mikið fyrir peninginn.

Vanatu

Það er langt til eyjanna í Suður-Kyrrahafinu héðan frá Íslandi en þeir sem vilja komast sem lengst í burtu og um leið upplifa ósvikna hitabeltisstemningu ættu að kynna sér Vanatu. Eyjaskeggjar hafa engan áhuga á að reisa risavaxin hótel og vatnsrennibrautargarða heldur er áherslan lögð á litla og vistvæna gististaði.

Ítalía

Maturinn er engu líkur, veðrið gott og fjöldi sögufrægra staða er næstum óteljandi. Þetta breytist varla í bráð en það sem gerir Ítalíu ögn meira spennandi á næsta ári er að þá eru 150 ár frá sameiningu landsins sem er tilefni til hátíðarhalda í borgum og sveitum.

Tansanía

Dýralífið í Tansaníu er engu líkt og þar er hægt að komast í nálægð við ógrynni af sjaldgæfum skepnum. Landið státar einnig af hæsta fjalli Afríku, Kilimanjaro, sem marga dreymir um að klífa. 

Sýrland

Ferðamannaiðnaðurinn er í miklum vexti þökk sé jákvæðara viðhorfi vesturlanda til stjórnvalda í Sýrlandi. Þar geta túristar nú gist í uppgerðum slottum og sötrað á cappuccino. Það er líka stutt í hina ósviknu hlið landsins þar sem tíminn hefur staðið í stað. Ekki skemmir fyrir að gestrisni er í hávegum höfð í Sýrlandi, túristum til mikillar blessunar.

Japan

Orðrómurinn um hið rándýra Japan á ekki við rök að styðjast að mati Lonely Planet. Ferðamenn geta auðveldlega notið ferðalagsis um landið án þess að leggja fyrir í mörg ár áður en lagt er upp í reisuna. Þeir sem ætla að ferðast um Japan ættu að kaupa sér lestarkort (Japan Rail Pass) sem gefur fólki ódýran aðgang að einu besta lestarkerfi í heimi. 

NÝJAR GREINAR: Vinsælasta ferðamannalandið
TILBOÐ: Rómantísk helgi í KaupmannahöfnÓdýrt hótel í New York   

 Mynd: OutdoorAlbania (Creative Commons)

Bookmark and Share