Bestu hótelin að mati fólksins

Hér eru þau hótel sem álitsgjafar ferðasíðunnar Tripadvisor telja þau bestu í heimi. Á listanum eru gististaðir sem venjulegir ferðamenn hafa efni á að bóka.

Þó vinsældarlista beri ekki að taka hátíðlega má stundum hafa af þeim nokkuð gagn. Einn slíkur er listi ferðasíðunnar Tripadvisor yfir bestu gististaðina. Sá er nefnilega byggður á milljónum umsagna frá fólki sem gist hefur á hótelunum. Og þar sem aðstandendur síðunnar stroka miskunnarlaust út sleggjudóma og skrum ætti Tripadvisor að gefa góða mynd af hótelunum sem þar koma fyrir.

Þetta eru gististaðirnir sem fengið hafa hæstar einkunnir hjá álitsgjöfum Tripadvisor á síðasta ári:

1. Golden Well (U Zlate Studne) í Prag, Tékklandi

Staðsetning í miðborg Prag gæti varla verið betri og útsýnið frá hótelherbergjunum er eitt af því sem gestirnir eru hvað ánægðastir með. Engin hefur heldur neitt slæmt að segja um þjónustuna á þessum fimm stjörnu hóteli þar sem passað er uppá að engin fari svangur í rúmið því eftirréttum er dreift inn á öll herbergi í lok dags. Það kostar ekki minna en tuttugu og fimm þúsund krónur að halla höfði, eina nótt, á þessu lofaðasta hóteli Tripadvisor.

2.  Anastasis Apparments á Santorini, Grikklandi

Það verður vænanlega ekki þverfótandi fyrir brúðhjónum á þessu íbúðarhóteli næstu árin. Engin gististaður í heimi er nefnilega jafn rómantískur að mati álitsgjafanna. Nóttin í ódýrustu íbúðunum kostar tæpar þrjátíu þúsund krónur.

3. Riad Le Calife, Fes, Marokkó

Þau Yasmin og Alexander kunna greinilega að taka vel á móti fólki því nöfn þeirra eru áberandi þegar rennt er yfir lofræðurnar um hótelið þeirra í Fes, næststærstu borg Marokkó. Þeir sem vilja fá að njóta þessarar rómuðu gestrisni þurfa ekki að borga hátt gjald því finna má herbergi sem kosta minna en tíu þúsund krónur. Á móti kemur að flugið héðan og til Fes kostar skildinginn.

4. Al Ponte Antico í Feneyjum, Ítalíu

Útsýnið frá hótelherbergjunum yfir eitt fallegasta byggða ból í heimi er það sem gestirnir lofa mest. Og ekki skemmir fyrir að hótelið er við hliðina á Rialto brúnni sem mynduð hefur verið í bak og fyrir. Nóttin kostar frá fjörtíu þúsund krónum.

5. La Villa Marbella, Marbella, Spáni

Starfsfólkið og staðsetning er það sem heillar gesti þessa litla og einfalda hótels í gamla bænum í Marbella. Nóttin kostar um þrjátíu og fimm þúsund. 

Hér eru listar Tripadvisor.

TILBOÐ FYRIR TÚRISTA: 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista á gistingu í Kaupmannahöfn og Berlín
TENGDAR GREINAR: Dýrustu hótelherbergi í heimiBestu gistiheimilin

Mynd: Wikimedia – Creative Commons