Þúsund íslenskir útlendingar sóttir heim

Það er leit að byggðu bóli í útlöndum þar sem jafn margir Íslendingar hafa komið sér fyrir eins og í Árósum. Þar er tilvalið að koma við á ferðalagi um Jótland og kynna sér hvað það er sem lokkar landann þangað.

Næststærsta borg Danmerkur er jafn fjölmenn og Ísland. Á þá staðreynd eru danskir blaðamenn gjarnir á að benda, bæði í lofgreinum um listafólkið okkar og eins þegar peningafólkið fær að heyra það. Það þykir nefnilega furðu sæta hversu atkvæðamikil við erum þrátt fyrir fámennið. En það er líka skrítið fyrir okkur sem héðan erum að rölta um þessa vinalegu borg og hugsa til þess að í henni búa jafn margir og á landinu okkar. Því Árósar er svo sannarlega smáborg og það tekur aðkomumanninn ekki langan tíma að ná þar áttum. 

Besta verslunarborgin

Það er hefð fyrir því í dönskum bæjum að kenna helstu verslunargötuna við strik. Þannig er því líka farið í Árósum og við götuna er að finna útibú frá þekktum skandinavískum og alþjóðlegum verslunarrisum á meðan heimamenn og minna þekktir spámenn halda sig Latínuhverfinu. Sem er einn mest sjarmerandi hluti borgarinnar með hlaðnar götur og lágreist hús.

Frederikbjerghverfið, bakvið lestarstöðina, er líka þekkt fyrir sérverslanir og matsölustaði þar sem líklegast er að eigandinn sjálfur standi bakvið afgreiðsluborðið. Þessi fína blanda af búðum tryggði Árósum nýlega nafnbótina besta verslunarborg Norðurlanda. Hvorki meira né minna.

Þar sem Ólafur Elíasson er á toppnum

Boy er þekktasta verkið á Aros safninu
Það er alltaf tekið fram í skrifum um Ólaf Elíasson í Danmörku að hann sé dansk-íslenskur. Hvað svo sem síðar verður því í dag hefur enginn Dani fyrir því að kenna listamann eins og Bertel Thorvaldsen við Ísland. Ekki einu sinni þeir sem sjá um sýningaskrána á safni þessa mikla myndhöggvara í Kaupmannahöfn. Þeir sem halda utan um textana sem listasafnið í Árósum sendir frá sér vita hins vegar vel af tengingu Ólafs við Ísland og í allri umfjöllun um regnbogann hans, sem tróna mun á toppi safnabyggingarinnar, er hann alltaf sagður „dansk/islandsk kunstner“. Aros listasafnið er því eiginlega skyldustopp fyrir þá sem eiga leið um borgina enda verður þetta verk Ólafs klárlega eitt af því sem prýða mun póstkort og kynningarmyndir borgarinnar næstu árin.

Að hafa það huggulegt

Þegar búið er að sinna listinni og búðunum er kominn tími til að gera það sem Danir eru svo góðir í. Að hafa það huggulegt, eða að „hygge sig“. Það gera íbúar borgarinnar til dæmis við ána sem skilur Strikið frá Latínuhverfinu. Þar er fjöldi veitingastaða en svo er líka hægt að ná sér í bita á nærliggjandi skyndibitastað og kannski öl og setjast við bakkann með heimamönnum. Borgin er líka vel sett með græn svæði sem eru, ólíkt Hljómskálagarðinum, full af fólki á góðum dögum. 

Þeir sem varið hafa nokkrum dögum í Árósum eða jafnvel bara dagsparti hafa sennilega fullan skilning á vali þessara 849 Íslendinga sem þar búa. Því hver vill ekki búa í borg þar sem fallegur miðbær er kjarni byggðarinnar en ekki verslunarmiðstöðvar? 

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við:

 

 

 

TILBOÐ: 10% afsláttur á ódýru hóteli í Kaupmannahöfn
TENGDAR GREINAR: Í landi danskra rússíbana

Myndir: Visit Denmark

Bookmark and Share