Tvö glæný hótel í Berlín

Breskur einkaklúbbur og skandinavísk hótelkeðja hafa blandað sér í slaginn um ferðamenn í þýska höfuðstaðnum.

Smelltu hér til að gera verðsamanburð á hótelum í Berlín

Ferðamannastraumurinn til Berlínar hefur getið af sér mjög fjölbreyttan hótelmarkað. Þar má finna alls kyns keðjuhótel en líka mörg af óvenjulegustu gistihúsum álfunnar. Nýlega opnuðu tveir aðilar sín fyrstu hótel í borginni, Soho House og Scandic. Þar er ólíku saman að jafna.

Scandic Berlin

Bjart er yfir herbergjunum á Scandic við Potsdamer Platz
Í nágrenni við háhýsabyggðina við Potsdamer Platz er að finna sex hundruð herbergja hótelbyggingu Scandic, eina af stærstu hótelkeðjum Norðurlanda.

Húsnæðið er innréttað í frekar látlausum og náttúrulegum stíl, líkt og frændur okkar eru svo hrifnir af. Litasamsetning herbergjanna ræðst til dæmis af því hvort herbergið er vetur, sumar, vor eða haust.

Scandic hótelin eru góð fyrir fjölskyldufólk því á öllum gististöðunum eru leiksvæði og barnabíó og einnig er hægt að fá sérstakan afslátt á unglingaherbergjum. Uppskriftir frá Jamie Oliver eiga svo að tryggja að börnin borði allt sem á diskinn er sett.

Staðsetningin hentar þeim vel sem vilja vera miðsvæðis og í námunda við samgönguæðar borgarinnar.

Herbergin kosta frá 99 evrum.
Heimasíða Scandic í Berlín.

Soho House Berlin

Tignarleg húsakynni hótelsins í Mitte hverfinu
Þar sem áður voru geymd leyniskjöl kommúnistaflokks Austur-Þýskalands geta ferðamenn nú hallað höfði í stíliseruðum hótelherbergjum og um leið sett plötu á fóninn. Því á flestum herbergjunum er úrval af vínýlplötum og spilari.

Það er einkaklúbburinn Soho House sem stendur að baki þessum fjörtíu herbergja gististað í reisulegri byggingu í Mitte hverfinu, ekki svo langt frá Alexanderplatz.

Lesa grein Túrista um Soho House í London

Soho house er ekki harðlokaður félagsskapur því þar geta allir fengið gistingu þó félagsmenn njóti sérkjara. Ódýrustu herbergin kosta 95 evrur.
Heimasíða Soho House Berlín

Smelltu hér til að gera verðsamanburð á hótelum í Berlín

NÝJAR GREINAR: Þriðja nóttin frí á fínni hótelum Manhattan
TILBOÐ: Ódýrt hótel í Kaupmannahöfn

Myndir: Úr myndasafni Scandic og Soho House

Bookmark and Share