Flug og hjól á Jótlandi

Flatneskjan í Danmörku er kjörlendi fyrir þá sem vilja hjóla í fríinu.

 

Á sumrin eru ferðamenn á hjólhestum áberandi á dönskum sveitavegum. Enda leit að landi þar sem þessi fararmáti er jafn þægilegur.

Um alla Danmörku liggja merktar hjólaleiðir sem henta bæði þeim sem vilja í stuttan túr með fjölskyldunni og hinum sem ætla sér að þeysa tugi kílómetra á dag. 

Farið eftir fornum aðalvegum

Löngu fyrir tíma járnbrauta og bíla lá ein aðal umferðaræð Danmerkur eftir miðju Jótlandi. Þessi 240 kílómetra vegur kallast Hærvejen og nær frá Viborg og suður til þýsku borgarinnar Padburg. Leiðin er vinsæl meðal hjólreiðafólks, sögu sinnar vegna og líka vegna náttúrufegurðarinnar. Vanir menn geta haldið ferðinni áfram þegar þeir hafa náð til Þýskalands því frá Padburg liggur slóði sem nær alla leið til Santiago de Compestella á Spáni.

Þeir sem hafa ekki hugsað sér að verja mörgum dögum eða vikum sitjandi á hnakki geta auðvitað hjólað hluta af Hærvejen eða haldið út að vesturströnd Jótlands. Þar eru margar af vinsælustu baðströndum Dana og ekki galið að geta skellt sér í sjóinn að loknum góðum hjólatúr í hafgolunni. Á heimasíðunni tgv.dk er að finna margar góðar hjólaleiðir um jóska vestrið.

Fallegasta leiðin

Ef það er sjávarsíðan sem heillar þá þykir 800 kílómetra slóði sem liggur meðfram Eystrarsaltinu vera einstaklega fögur. Og reyndar fullyrðir ferðamálaráðið á þessum slóðum að engin hjólaleið sé fallegri í Danaveldi. Þar hjólar fólkið á milli fallegra strandbæja með hugguleg gistihús og veitingastaði sem bjóða uppá heimalagað remúlaði og spælegg með hakkebuffinu.

Ódýrara að taka hjólið með

Þeir sem ætla sér langa leið á hjóli í sumar vilja sennilega frekar fara á sínu eigin og lágmarka þannig eymslin undan hnakkinum. Það borgar sig líka að borga aukalega fyrir hjólið í flug (kostar 7000 hjá Iceland Express og 7800 krónur hjá Icelandair) í stað þess að leigja á staðnum. En þó aðeins ef hjóla á í nokkra daga því dagleigan úti er á bilinu 50 til 100 danskar (1000 til 2000 íslenskar).

Jótland liggur vel við höggi í sumar. Bæði vegna þess hve flugsamgöngur þangað eru góðar og líka þar sem íslenska ungmennalandsliðið tekur þátt í Evrópukeppninni í knattspyrnu sem fer þar fram í júní. Það er til dæmis hægðarleikur að skella sér í hjólatúra á milli leikja liðsins því í öllum lestum í Danmörku eru sérstök stæði fyrir hjól. Því er hægt að taka lestina frá keppnisstað út í náttúruna, hjóla í nokkra daga og bruna svo tilbaka.

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við:

 

 

 

TILBOÐ: 10% afsláttur á ódýru hóteli í Kaupmannahöfn
TENGDAR GREINAR: Þúsund íslenskir útlendingar sóttir heim

Mynd: DanmarkMediaCenter