Ódýrustu borgarferðirnar um páskana

Fimm daga utanlandsferð undir lok apríl hljómar eflaust vel í eyrum flestra. Hér eru borgirnar sem ódýrast er að fljúga til á skírdag og heim annan í páskum.

Flugið til Köben er ódýrast fyrir þá sem vilja nýta alla páskadagana í útlöndum
Það eru vafalítið margir haldnir sterkri útþrá þessi misserin en geta sig hvergi hreyft þar sem frídagarnir eru uppurnir. Þökk sé fríinu í kringum páska geta þeir sem eru langt leiddir, lagt land undir fót þá án þess að biðja um frí í vinnunni. Túristi kannaði því hvert ódýrast er að fljúga 21. apríl og heim fjórum dögum síðar.

Skandinavía sker sig úr

Kaupmannahöfn er billegasti kosturinn fyrir þá sem vilja nýta alla frídagana í útlöndum um páskana. Þangað kostar rétt rúmar fjörtíu og tvöþúsund krónur að fljúga, minnst með Icelandair (42.010 kr) en örlítið dýrara hjá Iceland Express (42.699 kr.).

TILBOÐ FYRIR TÚRISTA: 10% afsláttur á hótelgistingu í Kaupmannahöfn

Ósló og Stokkhólmur eru í næstu sætum en miðinn með Icelandair til Noregs kostar 44.740 kr. og með sama félagi er hægt að fara til Feneyja norðursins, Stokkhólms, fyrir 48.910 kr. 

London og Dublin fyrir tæplega sextíu þúsund

Þó flogið sé nokkrum sinnum á dag á milli Keflavíkur og London þá er kosta páskaferðir þangað töluvert meira en til frændþjóðanna. Lægsta fargjaldið til London er hjá Icelandair (55.730 kr.) en miðinn með Iceland Express kostar rúmum þúsund krónum meira.

En þó flugið kosti minnst til þessara borga þá er líklegt að hótelin, veitingastaðirnir og skemmtunin séu dýrari þar en víða annars staðar. Því þessar fjórar borgir eiga það sammerkt að vera meðal dýrustu ferðamannastaðanna. Í Dublin fæst hins vegar meira fyrir krónurnar en á hinum stöðunum og þangað má panta beint flug hjá ferðaskrifstofunni Vita fyrir 59.900 kr. yfir páskana. Með Heimsferðum getur fólk komist til Búdapest fyrir 69.900 krónur og sú borg er þekkt fyrir hagstætt verðlag. Það borgar sig að reikna dæmið til enda áður en ferðin er bókuð. 

Þeir sem eru til í að borga meira en sjötíu þúsund geta valið úr miklu fleiri stöðum, t.d. Amsterdam (70.885 kr.), París (81.840 kr.) eða New York (87.090 kr.). Ef það skiptir ekki öllu máli að fljúga þessa daga þá er hægt að finna ódýrari ferðir með því að fljúga degi fyrr eða síðar. 

Verðin í þessari grein eru sótt á heimasíður flugfélaganna og ferðaskrifstofanna í dag (2.febrúar).

TILBOÐ FYRIR TÚRISTA: 10% afsláttur á hótelíbúðum í Berlín
NÝJAR GREINAR: Þúsund íslenskir útlendingar sóttir heim

Mynd: Ty Stange – Copenhagen Media Center

 

Bookmark and Share