Þessir tíu matreiðslumenn eru stjörnur morgundagsins í evrópska veitingahúsageiranum samkvæmt einum helsta matarrýni álfunnar.
BRETLAND
Bratt Graham, The Ledbury í London
Yfirkokkarnir á Noma og El Bulli eru meðal þeirra sem snætt hafa frægasta rétt Bratt Graham á The Ledbury. Hann samanstendur af grilluðum makríl, reyktum áli, Celtic sinnepi og shiso. Graham fékk nýlega Michelin stjörnu númer tvö. Þriggja rétta matseðill kostar 70 pund (um 13þúsund íslenskar) en tveir réttir í hádeginu er á 22 pund.
Stevie Parle, The Dock Kitchen í London
Stevie er aðeins tuttugu og fimm ára gamall en rekur engu að síður sinn eigin veitingstað í gamalli vöruskemmu í vesturhluta London. Maturinn er einfaldur en fágaður.
Tim Siadatan, Trullo í London
Hér gerir þú bestu kaupin í ítölskum mat í London segir Bruce Palling. Tim Siadatan var atvinnulaus unglingur þegar sjónvarpskokkurinn Jamie Oliver tók hann undir sína arma og kenndi honum fagið. Ódýrustu aðalréttirnir á Trullo kosta 16 pund (tæpar 3000 íslenskar).
DANMÖRK
Christian Puglisi, Relæ í Kaupmannahöfn
Fyrrum aðstoðarkokkur á tveimur af þekktustu veitingastöðum í heimi, El Bulli og Noma. Í ágúst í fyrra opnaði Christian sinn fyrsta stað á Jægerborgsgade á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Staðurinn nefnist Relæ og Bruce Palling mælir sérstaklega með makrílnum sem borinn er fram með blómkáli. Matseðill dagsins kostar 325 danskar (um 6500 íslenskar).
FRAKKLAND
Alexandre Gauthier, La Grenouillère í Montreuil Pas-de-Calais (nálægt París)
Það tók þennan þrítuga Frakka aðeins tvö ár að endurheimta Michelin stjörnuna sem þessi veitingastaður fjölskyldunnar hafði áður haft. Núna flykkist fólkið á La Grenouillère, í útjaðri Parísar, til að láta koma sér á óvart enda Alexandre þekktur fyrir frumlegheit í eldhúsinu.
Mathieu Rostaing Tayard, Le 126 í Lyon
Það eru aðeins tveir starfsmenn á staðnum og fjögra rétta matseðill dagsins kostar 35 evrur (um 5600 íslenskar krónur). Palling var sérstaklega ánægður með gnocchi með kryddjurtum, hvítlauk og kóngssveppi og svo tête de veau með selerístöppu.
126 Rue Sése, Lyon
Greg Marchand, Frenchie í París
Það er tveggja mánaða biðlisti eftir sæti í þessari skonsu í 2. hverfi Parísar. Eldhúsið er á stærð við fataskáp en það truflar ekki Greg Marchand sem töfrar þar fram ævintýralega rétti sem eiga engan sinn líka.
ÍTALÍA
Pier Giorgio Parini, Povero Diavolo (nælegt Rimini)
„Konungur kryddjurtanna“ er þekktur fyrir að skipta út matseðlinum sínum á hverjum degi og notast nær eingöngu við hráefni úr nágrenni staðarins.
www.ristorantepoverodiavolo.com
SPÁNN
Iñigo Pena, Narru í San Sebastian
Spænskir matreiðslumenn eru í miklum metum hjá Palling og hann telur Iñigo Pena vera þann efnilegast í landinu. Kjúklingavængir eldaðir í eggjarauðu með kartöflum heilluðu gagnrýnandann en það eru fiskréttirnir sem hafa komið staðnum á kortið.
SVÍÞJÓÐ
Magnus Nilsson, Fäviken
Kannski er þetta óvenjulegasti veitingastaður álfunnar. Hann stendur á miðri 8500 hektara landareign í norðurhluta Svíþjóðar og kokkurinn styðst næstum því einungis við hráefni úr sveitinni í kring. Reykt silungahrogn í heitri skorpu sem búin er til úr svínablóði er einn af aðalréttunum ásamt skógarhænsni og villijurtum.
Hér má lesa Gastroenophile, matarblogg Bruce Palling.
TENGDAR GREINAR: Smáréttasvall að hætti Baska – Barcelona bragðast betur
TILBOÐ: Ódýrt íbúðarhótel í Berlín, 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista
Myndir: Frá veitingastöðunum (mynd af Christian Puglisi, P-A Jörgensen)