Brottfararspjald í símanum

Það styttist í að farsímar leysi brottfararspjöld af hólmi. SAS flugfélagið gerir tilraunir þessi misserin með nýja tækni.

Í náinni framtíð verður nóg að renna farsímanum yfir skanna áður en gengið er um borð í flugvél. Brottfararspjöldin munu þá heyra sögunni til. Þetta er alla vega framtíðarsýn forsvarsmanna skandinavíska flugfélagsins SAS.

Þar á bæ eru hafnar tilraunir við að láta farþegana í innanlandsflugi í Danmörku skanna símana sína við brottfararhlið í stað þess að sýna brottfararspjald. Símarnir verða að vera útbúnir sérstakri flögu sem kallast NFC og er aðeins að finna í nýjustu gerðunum af Nokia og Samsung símum. Þjónustan hefur fengið nafnið Smart Pass.

Haft er eftir þjónustustjóra SAS í danska blaðinu Berlingske að farþegar félagsins kunni vel að meta að geta innritað sig í flug með símanum sínum og því sé ánægjulegt að geta útvíkkað símaþjónustuna enn frekar.

TILBOÐ: 10% afsláttur á hótelíbúðum í Berlín og í London.
TENGDAR GREINAR:
Stundvísustu flugfélögin

Mynd: SAS