Hótelverð í Reykjavík lækkaði á milli ára

Meðalverð á hótelherbergi var sex prósent lægra í fyrra en árið á undan í höfuðborginni.

Hótelgestir borguðu að jafnaði fimmtungi minna fyrir gistingu í evrópskum borgum í fyrra en á öðrum ársfjórðungi 2007 þegar hótelverð í álfunni náði hámarki. Þetta kemur fram í verðkönnun hótelbókunarsíðunnar Hotels.com.

Verðlagið stóð í stað á milli síðustu tveggja ára og er þetta í fyrsta skipti síðan 2007 að það lækkar ekki á milli ára. Í tilkynningu segir forstjóri Hotels.com að nú sé útlit fyrir að botninum hafi verið náð.

Reykjavík er þó ein af þeim evrópsku borgum þar sem verðið hélt áfram að lækka eða um sex prósent. Svipaða lækkun er að finna á hótelum í Kaupmannahöfn, Dublin, Tallinn og Búdapest. Mesta hækkunin var hins vegar í Bergen og Biarritz í Frakklandi þar sem verðið hækkaði um nærri þriðjung.

Á heimsvísu var mesta hækkunin í Sao Paulo þar sem meðalverð á hótelherbergi fór upp um 41 prósent. Hótel í stórborgunum París, New York og London hækkuðu gjaldskrár sínar um átta til tólf af hundraði á milli ára.

Í verðkönnuninni er verðið reiknað út í breskum pundum og því hafa gengissveiflur áhrif á niðurstöðunar.

NÝJAR GREINAR: Hótel heimamanna í Toronto
TILBOÐ: Berlín: Hótelíbúðir í Mitte hverfinu- 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: John Althouse Cohen (Creative Commons)