Rukka sextán þúsund fyrir aukatösku

Bookmark and Share

Það borgar sig að pakka öllum farangrinum ofan í eina tösku áður en haldið er í vesturátt með Delta flugfélaginu. Farþegarnir eru nefnilega krafðir um 50 evrur fyrir hverja aukatösku sem þeir taka með hvora leið.

Þann annan júní lendir fyrsta vél Delta flugfélagsins í Keflavík. Þá verða félögin þrjú sem halda uppi áætlunarflugi milli Íslands og New York. Reglur fyrirtækjanna varðandi farangur eru nokkuð mismunandi. Það kostar til að mynda rúmar sextán þúsund íslenskar að taka með sér eina aukatösku, fram og tilbaka, ef flogið er með Delta. Því samkvæmt reglum fyrirtækisins þá mega farþegar tékka inn eina tösku sér að kostnaðarlausu en borga 50 evrur (ca. 8100 krónur) fyrir hverja aukatösku hvora leið. Gjaldið er reyndar 55 evrur ef ekki hefur verið gengið frá greiðslunni á netinu sólarhring fyrir brottför.

LESTU LÍKA: 9 ráð til að létta farangurinn

Iceland Express rukkar farþegana einnig fyrir hverja innritaða tösku umfram þá einu sem er innifalin í fargjaldinu. Þar á bæ er gjaldið 3600 krónur fyrir hvern fluglegg, ef greitt er við bókun, en annars 4500 krónur á flugvellinum.

Hjá Icelandair má innrita tvær töskur án þess að greiða aukalega. Þriðja taskan kostar 11.500 krónur hvora leið. Hjá Icelandair og Delta er hámarksþyngdin 23 kíló en tuttugu hjá Iceland Express.

Öll félögin þrjú leyfa farþegum á almennu farrými að taka með sér eina tösku í handfarangur og persónulega hluti eins og yfirhafnir, varning úr fríhöfn og myndavélar.

TILBOÐ: Aloft í Harlem. Splunkunýtt hótel í New York

BÓKAÐU BÍLALEIGUBÍL Í ÚTLÖNDUM