Aprílgabb Ryanair?

Farþegar Ryanair verða að borga aukalega fyrir öryggismyndbandið og boðið verður upp á barnlaus flug samkvæmt fréttum dagsins af írska flugfélaginu.

Fyrir tveimur árum síðan sögðust forsvarsmenn írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair ætla að rukka farþegana fyrir afnot af klósettum um borð. Ekkert hefur orðið úr þeim áformum.

Í dag, 1. apríl, berast þær fréttir úr herbúðum félagsins að sérstakt gjald, sem nemur hundrað íslenskum krónum, verði lagt ofan á alla farmiða til að standa straum af gerð nýs öryggismyndbands. Talsmaður fyrirtækisins, Stephan McNamara, segir að félagið líti svo á að gerð öryggismyndbanda falli ekki undir flugþjónustu og því eðlilegt að viðskiptavinirnir borgi sérstaklega fyrir viðbótarþjónustu sem þessa. Hann telur að með þessari nýju gjaldtöku muni farþegarnir fylgjast betur með myndbandinu en ella.

Þetta eru ekki einu lygilegu fréttirnar af Ryanair í dag. Því samkvæmt fréttatilkynningu dagsins ætlar það að bjóða uppá barnlaus flug frá og með haustinu. Ástæðan sé sú að kannanir hafi sýnt að ferðamenn séu tilbúnir til að borga hærra miðaverð fyrir sæti í vél þar sem engin börn eru.

Stjórnendur Ryanair eru vanir að vekja á sér athygli með óvenjulegum tilkynningum, bæði 1. apríl sem aðra daga.

 

NÝJAR GREINAR: Rukka sextán þúsund fyrir aukatösku
og Hótel heimamanna í Toronto
TILBOÐ: Berlín: Hótelíbúðir í Mitte hverfinu- 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Wikicommons