Fallegasta þorpið í Danmörku

Gömul verstöð á eyjunni Fanø í Norðursjó er fallegasti bærinn í Danmörku að mati landsmanna

Þeir byggðu sér reisuleg múrsteinshús, með háum stráþökum, skipstjórarnir í bænum Sønderho á blómatíma seglskipanna. Rúmlega sjötíu þeirra standa ennþá í dag og þorpsmyndin er því mjög heilleg í þessu litla kauptúni eyjunni Fanø, sem fékk nýverið flest atkvæði í valinu á fallegasta smábænum í Danmörku.

Líf og fjör á sumrin

Með tilkomu gufuskipanna var fótunum kippt undan byggðinni í Sønderho og í dag búa þar aðeins rúmlega þrjú hundruð manns. Á sumrin fjölgar þó íbúunum talsvert því mörg gömlu húsanna eru nýtt sem sumarbústaðir. Fanø er líka vinsæll fer

ðamannastaður og þeir sem þangað koma geta vart annað en gefið sér smátíma í að rölta um hlykkjóttar götur Sønderho og virt fyrir sér þessa fallegu mannabústaði. Útsýnistúrnum er tilvalið að slútta á krá bæjarins, Sønderho kro, sem er nærri þrjú hundruð ára gömul og ein sú elsta í Danmörku.

Á kránni er að finna gistiheimili með nokkrum mjög huggulegum herbergjum sem leigð eru á 1000 til 1800 danskar á nótt.

15 kílómetra löng baðströnd

Um leið og sjórinn er nógu heitur fyrir sjóböð fjölgar farþegunum í ferjunni frá Esbjerg. Baðstrendur eyjunnar eru nefnilega ekki síður vinsælar en bæirnir hjá ferðafólki. Vatnið er víða aðgrunnt og aðstaðan því mjög góð fyrir börn sem geta auðveldlega buslað í sjávarmálinu

Á vesturströndinni er fimmtán kílómetra löng sandströnd þar sem flugdrekar og skútur eru áberandi því það getur orðið vindasamt á þessum hluta eyjunnar sem snýr út að Norðursjó.

Það tekur aðeins 12 mínútur að sigla út í Fanø frá Esbjerg. Þangað er hægt að taka með sér bíl eða bara leigja hjól þegar út í eyju er komið. Það er því lítið mál að gera stopp í Fanø á ferðalagi um Jótland.

Þar er líka nóg af sumarhúsum til leigu (sjá hér) fyrir þá sem vilja njóta sælunnar í fallegasta plássinu í Danaveldi lengur en dagspart.

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við:


 

TENGDAR GREINAR: Flug og hjól á Jótlandi
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Myndir: Danmark Media Center og Visit Fanø