Flugið lætur í minni pokann fyrir lestunum

Ryanair flugfélagið ætlar ekki að reyna að keppa við nýja hraðlest á Spáni.

Hún nær þrjú hundruð kílómetra hraða nýja lestin sem skýst á milli miðborga Valencia og Madridar á nítíu og fimm mínútum, helmingi styttri tíma en ferðin með þeirri gömlu tók. Það tekur klukkustund að fljúga þessa sömu leið og þá á eftir að reikna ferðir til og frá flugvöllum inní.

Það er því ekki að undra að eftirspurnin eftir flugmiðum á þessari leið hafi minnkað til muna með tilkomu nýju hraðlestarinnar. Írska flugfélagið Ryanair hefur því játað sig sigrað samkvæmt frétt Aftenposten og er hætt að fljúga milli borganna en hið spænska Iberia ætlar að halda áfram en þó með mun færri ferðum en áður.

Sambærileg þróun átti sér stað þegar ný hraðlest milli Brussel og Parísar var tekin í gagnið fyrir nokkrum árum síðan því þá gátu flugfélögin ekki lengur keppt við lestarfyrirtækin.

Farið með hraðlest Renfe, spænska lestarfyrirtækisins, kostar um 80 evrur sé bókað í tíma.

NÝJAR GREINAR: Í Legó í fríinu
TILBOÐ: Berlín: Hótelíbúðir í Mitte hverfinu- 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Wikicommons