Hótel í París í þremur verðflokkum

Gisting í borg ljósanna kostar sitt. Hér eru þó þrjú hótel sem eiga það sameiginlegt að vera í ódýrari kantinum og óhefðbundin.

Smelltu hér til að gera verðsamanburð á gistingu í París

Oops hostel

Af fjörtíu og sex herbergjum hótelsins eru 12 með eigin baðherbergi en á hinum er aðeins klósett en baðaðstaða fram á gangi, fyrir þá sem láta franskt bað ekki duga. Á milli 11 á morgnana og fram til fjögur verða gestir að halda sig utandyra á meðan ræstitæknar Oops sinna störfum sínum.

Verð frá 60 evrum (9800 krónur) fyrir sérherbergi en 23 evrur fyrir þá sem vilja bara bóka pláss í koju.

www.oops-paris.com

 

 

Hotel de la Paix Montparnasse

Þeir eru álíka uppteknir af veðrinu á Hotel de la Paix og við Íslendingar erum upp til hópa. Því á krítartöflu í lobbíinu er veðurspá dagsins teiknuð upp að morgni sérhvers dags með viðeigandi táknum fyrir allar tegundir veðurs.
Þessi svarta tafla er ekki eina tengingin við skólastofur á hótelinu því þegar það var tekið í gegn á síðasta ári var innréttað í anda skólabygginga sjötta áratugarins.
Þessar breytingar virðast hafa fallið í kramið, alla vega hjá notendum Tripadvisor, því þar er hótelið hlaðið lofi.
Ekki skemmir fyrir að stutt er í Lúxemborgargarðinn þar sem tilvalið er að skella sér í lautarferð á góðum degi enda lítið mál að verða sér út um gott nesti í París.

Ódýrustu tveggja manna herbergin kosta 102 evrur (16.800 kr.) en hægt er að fá lægri verð ef tilboð á heimsíðu hótelsins eru bókuð.

www.paris-montparnasse-hotel.com

Hotel Mayet

Á herbergjum eru gamlir skjalaskápar í stað náttborða, risastórar klukkur og veggirnir gráir því hér ræður skrifstofuþemað ríkjum. Eins furðulegt og það nú er enda dreymir sennilega fáa kontorista um að sofa í vinnunni.
Miklu léttara er yfir anddyrinu og matsölunum á fyrstu hæð því þar hafa grafíklistamenn verið fengnir til að sjá um stemninguna. Það er því töluverður stílmunur á hæðunum á Hotel Mayet.

Í afgreiðslunni eru póstkort með frímerkjum sem gestirnir geta sent frítt þangað sem þeir vilja. Og er ekki miklu skemmtilegra að fá sent póstkort en mms frá útlöndum? Alla vega er ekki hægt að innramma það síðarnefnda.

Ódýrustu tveggja manna herbergin kosta 130 evrur (21.300 kr.).

www.mayet.com

TILBOÐ: London: Gistiheimili og hótelíbúðir. 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista
TENGDAR GREINAR: Þrjú misdýr hótel í Stokkhólmi
VEGVÍSIR:
París

Myndir: Frá viðkomandi hótelum.