Hvað kostar að fylgja U-21 landsliðinu til Jótlands?

Hér eru þrjár hugmyndir að fótboltaferðum til Jótlands í sumar.

Í júní gefst sjaldgæft tækifæri til að fylgjast með íslensku karlalandsliði í úrslitakeppni stórmóts þegar U-21 landsliðið tekur þátt í lokakeppni Evrópumótsins í Danmörku.

Fyrsti leikur liðsins er í Árósum þann 11. júní og þriðji og síðasti leikurinn í riðlakeppninni er viku síðar í Álaborg. Úrslitaleikurinn sjálfur er þann tuttugasta og fimmta.

Hér eru þrjú dæmi um hvernig hægt er að komast í stúkuna og hvað það kostar.

Tveir leikir í riðlakeppninni – flug og miðar á 43 þúsund.

Ef flogið er með Icelandair til Billund 13. júní og heim viku síðar kostar flugið 40.280 (verð í dag, 28.apríl). Ódýrustu miðarnir á leikina kosta 70 danskar (um 1100 íslenskar) ef þeir eru keyptir á Billetnet.

Frá Billund flugvelli gengur rúta til Árósa nokkrum sinnum á dag. Fargjaldið er 180 danskar (tæpar 4000 íslenskar).

Allir leikirnir í riðlakeppninni – flug og miðar á 51 þúsund

Það hentar betur að fljúga með Icelandair til Billund fyrir þá sem vilja sjá alla þrjá leikina í riðlakeppninni en Iceland Express. Með Icelandair kostar flugið 11. til 20. júní 48.280 kr. (verðið í dag, 28.apríl). Síðan tekur við ferðalag frá Billund til Árósa eins og í dæminu á undan.

Einnig er hægt að fljúga til Kaupmannahafnar 11. júní og heim þann nítjánda. Með því að kaupa næturflug með Icelandair, aðfararnótt ellefta júní, kostar miðinn 41.390 eða tæpum sjö þúsund krónum minna en hjá Iceland Express sömu daga. Þeir sem fara þessa leið geta tekið lestina frá Kastrup og til Árósa sem tekur þrjá tíma og svo tilbaka frá Álaborg um miðnætti 18. júní, kvöldið fyrir flug. Þá má reyndar lítið út af bregða því lestin frá Álaborg rennir í hlað á Kastrup flugvelli tæpum tveimur tímum fyrir brottför flugvélarinnar. Ef lestarmiðar eru pantaðar á vef DSB með góðum fyrirvara kostar farið fram og tilbaka í kringum 800 danskar (18.000 íslenskar).

Allt mótið – Flug og miðar á 60 þúsund

Þeir sem trúa því að íslenska liðið fari langt í mótinu vilja síður þurfa að fara heim þegar riðlakeppnin er búin. Dagana 11. til 27. júní kostar flugið til Billund með Icelandair rúmar 55 þúsund. En ef farið er í gegnum Kaupmannahöfn (heimferð 26. júní) kostar farið með báðum félögum um fjörtíu og níu þúsund. Flug Iceland Express til Álaborgar nýtist ekki fótboltaáhugamönnum vel því aðeins er flogið á miðvikudögum frá 15. júní.

Ekki gleyma gistingunni

Hótelkostnaður vegur þungt á ferðalaginu en þeir sem vilja gista sem ódýrast geta pakkað niður tjaldi eða gist á farfuglaheimilum Danhostel. Gistihúsin á vef Bedandbreakfast.dk eru líka ódýr eða frá 300 dönskum fyrir tveggja manna herbergi. Af hótelunum þá eru fáir sem bjóða betur en Cabinn, Zleep í Álaborg og City Sleep-in í Árósum þar sem tveggja manna herbergi með baði kostar 750 danskar (16600 kr).

TENGDAR GREINAR: Þúsund íslenskir útlendingar sóttir heim og Íslendingar á heimavelli á Jótlandi
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Myndasafn KSÍ

 

 

 

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við: