Sérhæð fyrir konur á hóteli í Kaupmannahöfn

Karlmönnum verður meinaður aðgangur að sautjándu hæðinni á stærsta hóteli Norðurlanda sem opnar í næsta mánuði.

Baðherbergið er það fyrsta sem konur kanna þegar þær ganga inn í hótelherbergi og þeim þykir ekki verra til þess að hugsa að þar hafi karlmaður aldrei stigið inn fæti. Þetta eru niðurstöður markaðsrannsókna Bella Sky hótelsins í Kaupmannahöfn sem ætlar þess vegna að helga konum eina hæð. Þar verða baðherbergin útbúin stórum baðkörum, kraftmiklum sturtuhausum, förðunarspeglum og lífrænum sápum og kremum. Og konudekrið endar ekki þar því á rúmunum verða fleiri púðar en gengur og gerist, nóg af herðatrjám og speglarnir góðir fyrir þá sem vilja taka sig út frá öllum hliðum. Sloppar, inniskór, afskorin blóm og kvennatímarit verða líka hluti af staðalbúnaði herbergjanna á hæðinni sem kallast Bella Donna. Ekki verður rukkað aukalega fyrir þessa aðstöðu samkvæmt heimasíðu hótelsins.

Bella Sky verður stærsta hótel Norðurlanda þegar það opnar 16. maí. Byggingin sem það hýsir er um margt óvenjuleg því hún samanstendur af tveimur háhýsum sem halla að hvoru öðru og eru þau skakkari en sjálfur turninn í Písa.

Ódýrustu herbergin kosta frá 1090 dönskum krónum (tæplega 24 þúsund íslenskar).

NÝJAR GREINAR: Hótel heimamanna í Toronto
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Myndir: Thomas Eriksson Arkitekter