Spænskur ferðadagur

Á laugardaginn verður hægt að kynna sér spænska ferðamennsku í Kringlunni.

Það eru ekki mörg lönd sem laða til sín fleiri ferðamenn en Spánn og á laugardaginn efnir ferðamálaráð landsins til kynningar á Blómatorgi Kringlunnar. Þar geta gestir fengið upplýsingar um það sem í boði er fyrir ferðamenn á Spáni ásamt því að bragða á þarlendum réttum og hlustað á flamengótónlist.

Þetta er í fjórða sinn sem ferðamálaráð Spánar stendur fyrir spænskum ferðadegi á Íslandi og í tilkynningu segir Trine Fredrikke Pedersen hjá ferðamálaráði landsins að Spánn hafi verið einn vinsælasti áfangastaður Íslendinga um langt skeið. „Það er því ekki að ástæðulausu að viðtökurnar á þeim kynningum sem ferðamálaráðið hefur staðið fyrir á Íslandi hingað til hafa verið eins góðar og raun ber vitni. Spánn hefur upp á svo fjölmargt að bjóða og Íslendingar eru sérstaklega opnir fyrir að kynna sér það,“ segir Pedersen.

Á ferðadeginum verður boðið uppá skemmtiatriði fyrir alla aldurshópa og þar verður líka hægt að bóka Spánarreisu sumarsins.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir – Barcelona