Farþegar gjaldþrota flugfélaga eru ótryggðir

Farþegar gjaldþrota flugfélags verða að koma sér heim aftur fyrir eigin reikning. Engar tryggingar dekka skaðann.

Þeir sem eru staddir í útlöndum þegar flugfélagið, sem þeir eiga miða með heim, fer í gjaldþrot verða sjálfir að leggja út fyrir nýjum farmiða og svo gera kröfu í þrotabú fyrirtæksins. Sé ferðin ófarin er andvirði flugmiðans tapað nema kreditkortafyrirtækið geti afturkallað greiðsluna.

Ferðamenn sem keypt hafa alferð, þ.e.a.s. flug og hótel af ferðaskrifstofu eða flugfélagi sem er með ferðaskrifstofuleyfi, fá hins vegar tjónið bætt með skyldutryggingu sem þess háttar fyrirtæki verða að hafa.

Gjaldþrotatrygging innleidd í Danmörku

Haustið 2008 fór flugfélagið Sterling í Danmörku í þrot og sátu þá þúsundir farþega eftir með sárt ennið. Í kjölfarið var flugfélögum, sem starfa í Danmörku, gert skylt að bjóða viðskiptavinum sínum að kaupa gjaldþrotatryggingu um leið og flugmiði er pantaður. Kostar hún tuttugu danskar krónur (440 íslenskar). Þeir sem hana kaupa eru tryggðir á sama hátt og viðskiptavinir ferðaskrifstofa.

Danmörk er eina landið í Evrópu sem tekið hefur upp þessa gjaldþrotatryggingu fyrir flugfarþega og hefur það reynst þrautinni þyngri að fá flugfélögin þar til að bjóða uppá hana. Því er til skoðunar að skylda félögin til að innheimta iðgjaldið af öllum farþegum.

Á heimasíðu Flugmálastjórnar er að finna ítarlegar upplýsingar um réttindi flugfarþega við gjaldþrot og sömuleiðis á vef Neytendasamtakanna.

NÝJAR GREINAR: Gist í klefa í New York
TILBOÐ: London: Gistiheimili og hótelíbúðir. 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Jonatan Ortega-Creative Commons