Ferðaminningar Arnar Úlfars Sævarssonar

Rútuferðaleg um Tyrkland,  ógleymanleg pizza í Napólí og veikindi á fimm stjörnu hóteli er meðal þess sem Gettu betur dómarinn Örn Úlfar minnist úr utanlandsferðum sínum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Þá fór ég til Danmerkur sem smábarn með móður minni en ég var smábarn og man ekkert eftir þessu. Fyrstu utanlandsferðirnar sem ég man eftir voru siglingar með afa mínum, en hann var skipstjóri hjá Eimskip.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Árið 2007 fór ég í mjög eftirminnilega ferð um Tyrkland með konunni minni. Istanbúl heillaði okkur upp úr skónum, bæði borgin sjálf; t.d. moskurnar, baðhúsin og veitingahúsin, en ekki síður fólkið. Ég hef hvergi kynnst annarri eins gestrisni og í Tyrklandi og það er virkilega vel tekið á móti ferðafólki. Við ferðuðumst um landið með rútum. Í mínum huga er það héraðið Cappadochia sem stendur upp úr. Þetta er hálfgert ævintýraland með mögnuðum klettamyndunum þar sem fólk hefur m.a. gert sér híbýli í gegnum aldirnar. Við skoðuðum m.a. mikla neðanjarðarborg þar sem fjöldi fólks faldi sig á tímabilum ofsókna gegn kristnu fólki.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Það var námskeið sem ég fór á fyrir starfsfólk auglýsingakeðjunnar McCann Erickson á fimm stjörnu hóteli í Suður-Hollandi. Ég var veikur allan tímann, gat ekki borðað neitt af lúxusmatnum og gleymdi veskinu mínu í lestinni á leiðinni til Amsterdam.

Tek alltaf með í fríið:
Síma, kreditkort, vegabréf og lesefni af léttara taginu.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Þegar lögreglan kom að mér og félaga mínum þegar við ákváðum að hlaupa á nærbuxunum kringum gosbrunn á torgi einu í Aix en Provence. Einnig get ég nefnt vandræðalegt augnablik þegar ég ákvað að halla skíðunum mínum upp að bíl bandaríkjamanns í Vermont. Hann jós yfir mig verðskulduðum skömmum fyrir vikið.

Besta maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Það kemur margt til greina en af einhverjum ástæðum kemur hin stórkostlega pizza á Da Michele í Napólí fyrst upp í hugann.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
Istanbúl

Draumafríið:
Ég á mér draum um að byrja í safaríferð í Tansaníu, fara þaðan og skoða lemúrana á Madagaskar og enda á Zanzibar.