Ferðaminningar Gerðar Kristnýjar

Á sínum uppáhalds stað í útlöndum tók Gerður Kristný skáld ákvörðun um að gerast atvinnuhöfundur. Hér rifjar hún upp ferðalögin sín.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég fór til Svíþjóðar með foreldrum mínum þegar ég var kríli. Þar höfðu þau verið við nám og störf. Á myndunum sem teknar voru virðist ég hafa skemmt mér ákaflega vel á rólóvöllunum.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Nú verð ég að nefna nokkrar. Nice í Suður-Frakklandi er mikil dásemdarborg, sér í lagi gamla hverfið með sínum þröngu götum þar sem þvotturinn blaktir hátt fyrir ofan höfuðið á vegfarendum. Veðráttan er þægileg og fólkið svo gott. Þarna dvaldi ég í þrjá mánuði vorið 2003 og skrifaði. Þá tók ég þá ákvörðun að gerast atvinnuhöfundur. Stundum áttar maður sig betur á sjálfum sér ef maður fer í burtu – einn síns liðs. Vorið 2007 fór ég með eiginmanni mínum til Japan. Við heimsóttum Tókíó, Kýótó og Nikko. Það var sko gaman. Við höfðum safnað lengi fyrir ferðinni og hlakkað mikið til. Tilhlökkunin er vitaskuld hluti af hverri ferð. Haustið 2008 dvaldi ég í Stokkhólmi, borg sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, og byrjaði þar að yrkja Blóðhófni í frið, ró og spekt. Ég gaf honum lausan tauminn og hann rataði sjálfur heim.

Ég stend mig líka oft að því að hugsa til ferðar sem ég fór til Istanbúl með yngri bróður mínum vorið 1996. Góð vinkona bjó þar og við ákváðum að njóta gestrisni hennar. Þótt langt sé um liðið rifjast birtan og borgarhljóðin oft upp fyrir mér: skvaldrið, umferðin og söngur gassölumannanna. Mér finnst vænt um að hafa farið í þessa ferð einmitt með bróður mínum sem þá var nýorðinn stúdent. Við lögðumst í rútuferðalag og skoðuðum meðal annars staðinn þar sem hin forna borg Trója stóð. Svo var legið á sólarströnd þar sem sást vel til grísku eyjunnar Lesbos. Okkur var ráðið frá því að fara þangað eða eins og heimamenn orðuðu það: ,,Don’t go there. Nothing but lesbian parties!”

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Allar utanlandsferðir mínar hafa verið vel heppnaðar. Ég hef alltaf skemmt mér vel, séð eitthvað nýtt og kynnst góðu fólki. Ein ferð getur líka leitt af sér fleiri ævintýri. Fyrir þremur árum var mér boðið á rithöfundaþing í finnskri sveit og var skikkuð til að deila kofa úti í skógi með stelpu frá Wales. Okkur leist hvorugri á það fyrirkomulag. Ég meina, við þekktumst ekkert! Með okkur tókst hins vegar afbragðs vinátta. Við spjölluðum saman fram á nótt og bárum saman bækur okkur. Hún hefur komið því til leiðar að mér hefur verið boðið að lesa upp í Wales síðar á þessu ári. Þá fáum við tækifæri til að hittast aftur.

Tek alltaf með í fríið:
Eyrnartappar og góður hálsklútur eru nauðsynlegir en síðan hefur smásagnasafnið Marcovaldo eftir Italo Calvino fengið að koma með í síðustu ferðir. Þetta er frekar þunn bók og fer því vel í handfarangri. Það er gott að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa í biðröðum á flugvöllum.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Visby heitir magnaður bær á sænsku eyjunni Gotlandi. Hann er á heimsminjaskrá Unesco vegna borgarmúrs frá miðöldum auk fornra húsa og götumyndar. Þarna var ég sumarið 2007 og ákvað að skella mér til næstu eyjar, Fårö, þar sem Ingmar Bergman bjó en hann lést einmitt þetta sumar. Það rann upp fyrir mér á miðri leið að ég hafði farið í ranga rútu og hafði slegist í för með hressum eldri borgurum sem tóku sér fullgóðan tíma í ferðalagið. Það hefði átt að hringja bjöllum að liðið skyldi stoppa á kortersfresti og staulast út úr rútunni til að syngja saman sálma. Þegar sannleikurinn rann loksins upp fyrir mér yfirgaf ég partíið og tók leigubíl að ferjustaðnum. Fårö reyndist undurfögur og ég lét mig dreyma um að sýna sonum mínum og eiginmanni þessa eyju. Sá draumur rættist í fyrrasumar.

Besta maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Allar kræsingarnar sem ég bragðaði í Kolkata á Indlandi. Það er engu logið upp á indverska matargerð. Svo er mannlífið svo magnað í þessari borg og gestgjafar mínir reyndust ákaflega hjartahlýtt fólk.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Nice í Suður-Frakklandi, takk fyrir! Ég vil endilega sýna sonum mínum þá fallegu borg og leyfa þeim að leika sér á ströndinni. Síðan er ég nýkomin frá Kaupmannahöfn. Þangað er alltaf notalegt að koma.

Draumafríið:
Mig blóðlangar að fara með manninum mínum til Marokkó og er nú að safna fyrir ferðinni. Síðar á þessu ári ætla ég hins vegar til Kína. Í ljósi þess að þegar er farið að örla á tilhlökkun má segja að ferðin sé hafin.