Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Gerðar Kristnýjar

Á sínum uppáhalds stað í útlöndum tók Gerður Kristný skáld ákvörðun um að gerast atvinnuhöfundur. Hér rifjar hún upp ferðalögin sín.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég fór til Svíþjóðar með foreldrum mínum þegar ég var kríli. Þar höfðu þau verið við nám og störf. Á myndunum sem teknar voru virðist ég hafa skemmt mér ákaflega vel á rólóvöllunum.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Nú verð ég að nefna nokkrar. Nice í Suður-Frakklandi er mikil dásemdarborg, sér í lagi gamla hverfið með sínum þröngu götum þar sem þvotturinn blaktir hátt fyrir ofan höfuðið á vegfarendum. Veðráttan er þægileg og fólkið svo gott. Þarna dvaldi ég í þrjá mánuði vorið 2003 og skrifaði. Þá tók ég þá ákvörðun að gerast atvinnuhöfundur. Stundum áttar maður sig betur á sjálfum sér ef maður fer í burtu – einn síns liðs. Vorið 2007 fór ég með eiginmanni mínum til Japan. Við heimsóttum Tókíó, Kýótó og Nikko. Það var sko gaman. Við höfðum safnað lengi fyrir ferðinni og hlakkað mikið til. Tilhlökkunin er vitaskuld hluti af hverri ferð. Haustið 2008 dvaldi ég í Stokkhólmi, borg sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, og byrjaði þar að yrkja Blóðhófni í frið, ró og spekt. Ég gaf honum lausan tauminn og hann rataði sjálfur heim.

Ég stend mig líka oft að því að hugsa til ferðar sem ég fór til Istanbúl með yngri bróður mínum vorið 1996. Góð vinkona bjó þar og við ákváðum að njóta gestrisni hennar. Þótt langt sé um liðið rifjast birtan og borgarhljóðin oft upp fyrir mér: skvaldrið, umferðin og söngur gassölumannanna. Mér finnst vænt um að hafa farið í þessa ferð einmitt með bróður mínum sem þá var nýorðinn stúdent. Við lögðumst í rútuferðalag og skoðuðum meðal annars staðinn þar sem hin forna borg Trója stóð. Svo var legið á sólarströnd þar sem sást vel til grísku eyjunnar Lesbos. Okkur var ráðið frá því að fara þangað eða eins og heimamenn orðuðu það: ,,Don’t go there. Nothing but lesbian parties!”

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Allar utanlandsferðir mínar hafa verið vel heppnaðar. Ég hef alltaf skemmt mér vel, séð eitthvað nýtt og kynnst góðu fólki. Ein ferð getur líka leitt af sér fleiri ævintýri. Fyrir þremur árum var mér boðið á rithöfundaþing í finnskri sveit og var skikkuð til að deila kofa úti í skógi með stelpu frá Wales. Okkur leist hvorugri á það fyrirkomulag. Ég meina, við þekktumst ekkert! Með okkur tókst hins vegar afbragðs vinátta. Við spjölluðum saman fram á nótt og bárum saman bækur okkur. Hún hefur komið því til leiðar að mér hefur verið boðið að lesa upp í Wales síðar á þessu ári. Þá fáum við tækifæri til að hittast aftur.

Tek alltaf með í fríið:
Eyrnartappar og góður hálsklútur eru nauðsynlegir en síðan hefur smásagnasafnið Marcovaldo eftir Italo Calvino fengið að koma með í síðustu ferðir. Þetta er frekar þunn bók og fer því vel í handfarangri. Það er gott að hafa eitthvað skemmtilegt að lesa í biðröðum á flugvöllum.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Visby heitir magnaður bær á sænsku eyjunni Gotlandi. Hann er á heimsminjaskrá Unesco vegna borgarmúrs frá miðöldum auk fornra húsa og götumyndar. Þarna var ég sumarið 2007 og ákvað að skella mér til næstu eyjar, Fårö, þar sem Ingmar Bergman bjó en hann lést einmitt þetta sumar. Það rann upp fyrir mér á miðri leið að ég hafði farið í ranga rútu og hafði slegist í för með hressum eldri borgurum sem tóku sér fullgóðan tíma í ferðalagið. Það hefði átt að hringja bjöllum að liðið skyldi stoppa á kortersfresti og staulast út úr rútunni til að syngja saman sálma. Þegar sannleikurinn rann loksins upp fyrir mér yfirgaf ég partíið og tók leigubíl að ferjustaðnum. Fårö reyndist undurfögur og ég lét mig dreyma um að sýna sonum mínum og eiginmanni þessa eyju. Sá draumur rættist í fyrrasumar.

Besta maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Allar kræsingarnar sem ég bragðaði í Kolkata á Indlandi. Það er engu logið upp á indverska matargerð. Svo er mannlífið svo magnað í þessari borg og gestgjafar mínir reyndust ákaflega hjartahlýtt fólk.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Nice í Suður-Frakklandi, takk fyrir! Ég vil endilega sýna sonum mínum þá fallegu borg og leyfa þeim að leika sér á ströndinni. Síðan er ég nýkomin frá Kaupmannahöfn. Þangað er alltaf notalegt að koma.

Draumafríið:
Mig blóðlangar að fara með manninum mínum til Marokkó og er nú að safna fyrir ferðinni. Síðar á þessu ári ætla ég hins vegar til Kína. Í ljósi þess að þegar er farið að örla á tilhlökkun má segja að ferðin sé hafin.

Nýtt efni

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …

Fyrr á þessu ári kynnti fyrirtækið til sögunnar Precious Honeyglow anansinn sem er aðeins um 600 1000 grömm að þyngd eða um það bil helmingi minni en hefðbundinn ananas.Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu segir að það kappkosti ávallt að uppfylla óskir kaupenda, hvort sem þær eru um sætara bragð, sjálfbærnisjónarmið og nú – stærð. Hið nýja …

Tekjur Icelandair af farþegaflugi námu rúmlega 27 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins og hafa þeir aldrei verið hærri á þessum tíma árs. Sætaframboðið hefur heldur aldrei verið meira en það jókst það um 21 prósent á milli ára og var farþegahópurinn 14 prósent fjölmennari núna en fyrstu þrjá mánuðina í fyrra. Þá stóðu farþegar …

Það seldust 183 þúsund Volvo bílar á fyrsta fjórðungi ársins sem var aukning um 12 prósent frá sama tíma í fyrra. Engu að síður dróst veltan saman um 2 prósent og rekstrarafkoman (Ebit) nam 4,7 milljörðum sænskra króna eða 61 milljarði kr. Það er töluvert undir spá greinenda sem höfðu að jafnaði gert ráð rekstrarhagnaði …

„Afkoma fyrsta ársfjórðungs var í takt við væntingar okkar en rekstrarniðurstaðan í janúarmánuði litaðist af áhrifum alþjóðlegrar umfjöllunar um eldgos á Reykjanesi. Við nýttum þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir til að laga sætaframboð að markaðsaðstæðum og jukum fjölda tengifarþega um 48 prósent með aukinni áherslu á þann markað þar sem markaðurinn til Íslands …

Áður en skemmtiferðaskipin taka að fylla götur Ísafjarðar af forvitnum ferðalöngum eru tvær helgar að vori sem fylla bæinn af heldur ólíkum hópum fólks. Sú fyrri er páskahelgin þegar tónlistarfólk og áhangendur þeirra þyrpast í bæinn til að taka þátt í rokkhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður, og sú síðari er Fossavatnshelgin, sem fór fram …

Tekjur Finnair drógust saman um tvö prósent á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir að finnska flugfélagið hafi aukið framboðið. Skýringin á samdrættinum liggur í verkföllum, verri sætanýtingu og lægri tekjum af fraktflutningum samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í morgun. Rekstrarkostnaður Finnair á fyrsta ársfjórðungi var á pari við sama tímabil í fyrra og tapaði …