Ferðaminningar Kristjáns Sigurjónssonar

Fjölskylda Kristjáns Sigurjónssonar fréttamanns hefur fullan skilning á því að hann þurfi að verja allmiklum tíma í plötubúðum þegar þau ferðast til útlanda. Hann rifjar hér upp ferðalög sín út fyrir landsteinana.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég var að verða tvítugur þegar ég fór fyrst til útlanda 1975.  Þetta var haustið eftir stúdentspróf og ég hafði ráðið mig sem au pair (ætli ég sé ekki fyrsti karl au pairinn?) hjá systur minni og mági sem voru að hefja framhaldsnám í lífræði í Bangor í Norður Wales. Þau fóru út nokkrum vikum á undan mér þannig að ég fór einn til Lundúna og dólaði þar í nokkra daga. Ég man að ég varð fyrir hálfgerðu menningarsjokki í leigubílnum á leið inn í borgina. Stærðin, byggingarnar og allur mannfjöldinn og margir svartir og gulir! Ég skil ekki ennþá hvernig ég bjargaði mér þarna einn, en ég hafði það af að sjá John Mayall, Fairport Convention, Shirley Collins, Watersons og Martin Carthy  í Royal Albert Hall, fara á Stanford Brigde á leik Chelsea og Leicester, þræða plötubúðir, panta bjór á pöbb, standast ásókn ágengra portkvenna  og borða kínverskan mat. Utanlandsferðir hjá venjulegu alþýðufólki voru ekki algengar á þessum árum og það þótti bara nokkuð gott að komast fyrst út fyrir landsteinana 20 ára gamall. Foreldrar mínir voru rúmlega fimmtugir þegar þau stigu fyrst á erlenda grund.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Þetta er erfitt því þær eru nokkrar. Póllandsferð sem við hjónin fórum ásamt dóttur og tengdasyni í ágúst siðastliðnum var hreint frábær. Við nutum gestrisni fjölskyldu tengdasonarins, sem er hálfpólskur. Við vorum viku í Krakow, borg sem allir ættu að heimsækja og síðari vikuna á vinalegu sveitahóteli um 100 km sunnan Krakow. Þessi hluti Póllands er mjög fallegur og snyrtilegur, matur og drykkur góður og Pólverjar hlýlegir og góðir heim að sækja. Sagan er mjög merkileg, ekki síst samtímasagan og magnað að heyra Pólverja segja frá lífinu undir hæl nasista í stríðinu og síðan kommúnista eftir stríð. Heimsókn í Auschwitz tekur á en er nauðsynleg og ógleymanleg. Verðlagið var afskaplega þægilegt og ég uppgötvaði æðislega pólska fjallahljómsveit frá Zakopane, TribunieTutki og keypti marga diska. Aðrar mjög eftirminnlegar ferðir eru sex vikna fjölskylduferð í bíl um Bandaríkin, tveggja vikna vinnuferð til Suður-Afríku, Malaví og Úganda og mánaðardvöl í 15 fm2 sæluhúsi í fjöllunum norðan Malaga. Þá féllum við hjónin endanlega fyrir Spáni.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Hér kemurðu að tómum kofanum. Aldrei misst af flugvél, lent í alvarlegum veikindum, seinkunum eða misskilningi, vonlausum ferðafélögum, verið bitinn af hundi, rændur, barinn eða plataður. 7-9-13.

Tek alltaf með í fríið:
Ferðabók og kort um svæðið, skáldsögur og i-pod shuffle með besta lagasafni sem til er (sennilega einn um þá skoðun).

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Það var í París á heitum sumardegi 1983 í fjölskylduferð með tveggja ára dóttur okkar. Við héldum að bleiutímabili væri lokið. Henni varð brátt í brók á vinsælu almenningstorgi. Það kostaði augnagotur, glott og hlátur hjá heimamönnum, en panik og frumstæðar reddingar hjá okkur. Hláturskastið kom síðar.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Verð að nefna tvennt. Annars vegar veitingastaðurinn Texture í Lundúnum sem Xavier Rousset og Agnar Sverrisson reka skammt frá Marble Arch. Þar fengum við hreint ævintýrlega veislu í hádeginu vorið 2008, íslenskt hráefni eins og lax, þorsk, lamb og skyr en matreitt á spennandi og framandi hátt m.a. með parmesan snjó. Hins vegar troðfullur tapas bar í miðborg Granada. Þar ríkti fullkomin ringulreið að því er virtist, en þjónarnir höfðu allt á hreinu, skrifuðu ekkert niður heldur höfðu allar upplýsingar og pantanir í kollinum. Og réttirnir voru fullkomnir.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
Plötubúðir. Hef ætíð notið góðs skilnings annarra í fjölskyldunni um að ég þurfi drjúgan tíma til að skanna bestu plötubúðirnar. HMV í Lundúnum, Concerto í Amsterdam. Ég get gleymt mér tímunum saman.  Það sama á reyndar við um bókabúðir.

Draumafríið:
Hef alltaf langað að fara til Suður-Ameríku og Ástralíu. Annars er draumafríið núna sólarlandaferð á La Cala ströndina norðan Alicante á Spáni. Þar verðum við í tvær vikur í algjörri afslöppun á fjögurra stjörnu hóteli í fullu fæði með eftirlaunaþegum frá Spáni og Noregi. Þurfum ekkert að hugsa, lesum nokkrar bækur, sleikjum sólina, drekkum nokkur rauðvíns- eða freyðivínstár og skoðum okkur hóflega um. Einhverjum finnst þetta kannski plebbalegt, en það er ekki til betri leið til að hvíla sig.