Sofið í annarra manna rúmi

Hér er þrjár síður þar sem finna má fría eða ódýra heimagistingu.

Það eru margar óvenjulegar íbúðir til leigu á Airbnb.
Þeir eru blessunarlega margir útlendingarnir sem vilja ólmir skipta á íbúðunum sínum í heitu löndunum fyrir húsaskjól hér á landi. Svo er hellingur af fólki til í að leyfa þér að gista hjá sér fyrir ekki neitt.

Hér eru þrír ólíkir kostir fyrir þá sem vilja spara sér hótelgistinguna í næstu utanlandsferð.

Homeexchange.com

Af þeim rúmlega fjörtíu þúsund eignum sem eru auglýstar á Homeexchange.com eru 146 íslenskar. Það er því töluvert af Íslendingum sem borga mánaðarlega um 1200 íslenskar (9,95 dollara) fyrir að hafa íbúðina sína á skrá á síðunni og eiga möguleika á að ferðast til útlanda án þess að borga fyrir gistingu.

Í þau tæplega tuttugu ár sem Homeexchange hefur verið til hefur fyrirtækinu aldrei borist kvörtun vegna skemmdarverka eða þjófnaðar samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðunni.

Couchsurfing.org

Fyrir mörgum árum sendi Bandaríkjamaðurinn Casey Fenton tölvupóst á 1500 reykvíska stúdenta og bað um að fá að gista á sófanum hjá þeim. Fjöldi fólks tók jákvætt í þessa beiðni hans og þá kviknaði hugmyndin að Couchsurfing.org. Í dag er að finna á síðunni heimboð frá rúmlega tveimur milljónum manna um víða veröld.

Það kostar ekkert að leita í gagnabankanum en frjáls framlög til reksturs síðunnar eru vel þegin. Gistingin kostar heldur ekki neitt en það er næstum því sjálfsögð kurteisi að færa gestgjafanum litla gjöf í þakklætisskyni.

Airbnb.com

Hjá Airbnb er hægt að finna hóflega verðlagða heimagistingu í níu þúsund borgum í 170 löndum. Og á síðunni geta líka þeir sem vilja drýgja tekjurnar leigt ferðamönnum íbúðirnar sínar. Í Reykjavík eru á fimmta tug gistimöguleika að finna og verðið á bilinu 50 til 150 dollara fyrir nóttina.

NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Gerðar Kristnýjar
TILBOÐ:
Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Airbnb