Sjarmerandi hótel í Stokkhólmi

Hér er gistingin fyrir þá sem vilja lifa og hrærast í líflegasta hverfinu í höfuðstað Svía í nokkra daga.

Það þykir ekkert hverfi í Stokkhólmi jafn smart og Södermalm eða SoFo eins og borgarbúar kalla það. Þar hefur hugmyndaríkt athafnafólk opnað alls kyns sérverslanir, kaffihús, gallerí og veitingastaði sem lokka ekki aðeins til sín Hólmara úr öðrum hverfum heldur líka túrista.

Þeir sem vilja upplifa þá skemmtilegu stemningu sem þarna ríkir ættu að kanna hvort ekki er laust herbergi á Columbus hótelinu sem er staðsett í miðju Södermalm, rétt við Medborgarplatsen, hjarta þessa borgarhluta.

Einfalt og heimilislegt

Fyrir gluggunum á herbergjunum eru síðar, dökklitar gardínur, sófarnir eru mjúkir og stórir og á veggjunum eru myndir í útskornum, gulllituðum römmum. Hótelið er því ekki innréttað í anda skandinavískrar naumhyggju og ekki kemur það niður á hlýlegheitunum í þessu vinsæla gistihúsi sem fær mjög góða umfjöllun hjá notendum Tripadvisor.

Ódýrt –  á sænskan mælikvarða

Stokkhólmur er ekki ódýr borg heim að sækja og hótelprísinn þar með því hæsta sem þekkist. Kosturinn við verðlagið á Columbus hótelinu er að hægt er að panta herbergi án baðherbergis fyrir 845 sænskar (15600 íslenskar). Það eru ágætis kaup í þessari borg fyrir jafn gott og vel staðsett hótel. Þeir sem vilja síður deila baðaðstöðunni verða að borga að lágmarki 1350 sænskar.

Heimasíða Columbus Hotell

TENGDAR GREINAR: Þrjú misdýr hótel í Stokkhólmi
NÝJAR GREINAR: Hvað kostar að fylgja U-21 landsliðinu til Jótlands?
TILBOÐ:
Berlín: Hótelíbúðir í Mitte hverfinu- 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Myndir: Columbus hotell

Share |