Rokkað á götum Gautaborgar

Fleet Foxes, Pulp og Kayne West eru stærstu nöfnin á tónlistarhátíð sem fer fram í Gautaborg í ágúst.

Meðlimir Pulp halda endurfundi í Gautaborg í sumar
Það eru ekki allir tónlistarunnendur til í að kúpla sig út úr siðmenningunni í nokkra daga og hreiðra um sig í tjaldbúðum til þess eins að geta farið á nokkra góða tónleika. Og kannski þess vegna njóta borgarhátíðir eins og Airwaves og Way Out West í Gautaborg vinsælda því þeir sem þær sækja þurfa ekki að taka þátt í útihátíð á milli tónleika.

Í Gautaborg er í raun um tvær hátíðir að ræða. Stay Out West þar sem minni spámenn spila á klúbbum, börum og kirkjum borgarinnar og Way Out West sem fer fram í Slottskogen, myndarlegum skógi í miðri borginni. Þar eru reistar nokkrar senur í tilefni af hátíðarhöldunum en þegar ballið er búið verða allir að fara heim því ekki má tjalda í skóginum.

Nokkrir stórir og mýmargir smærri

Áhugafólk um sænska dægurlagatónlist fær nátturulega helling fyrir sinn snúð á hátíðinni enda heimamenn áberandi á listanum yfir þá sem troða upp. En þar er líka að finna bandarískar stórstjörnur eins og Kanye West og hljómsveitina Fleet Foxes og helling af tónlistarmönnum sem eiga sér færri aðdáendur. Endurkoma Sheffield bandsins Pulp mun svo vafalítið lokka marga ráðsetta poppara út í skóg og tryggja góða aldursdreifingu á svæðinu.

Bæði Icelandair og Iceland Express fljúga beint til Gautaborgar og þaðan er líka auðvelt að komast með lest frá Osló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi.

Miðinn á Way Out West kostar 1395 sænskar (um 25 þúsund íslenskar) og fer hátíðin fram helgina 11. til 13. ágúst.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir-Gautaborg
TILBOÐ: Berlín: Hótelíbúðir í Mitte hverfinu- 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Way Out West