Allt að þrefalt lengri bið í Keflavík en á Kastrup

Meðalbiðtíminn við öryggisleitina í Keflavík er mun lengri en á Kastrup.

Flugfarþegar þurfa að jafnaði að bíða í sjö til tíu mínútur við öryggishliðið á Keflavíkurflugvelli á meðan biðin á Kastrup í Kaupmannahöfn er rúmar þrjár mínútur að meðaltali, samkvæmt upplýsingum Túrista frá flugstöðvunum.

Á Gardermoen í Osló komast 95 prósent farþega í gegnum öryggisleitina á minna en 5 mínútum og fimm prósent þurfa í mesta lagi að bíða í kortér. Tölur um meðalbiðtíma eru ekki fáanlegar hjá Norðmönnunum en út frá þessum upplýsingum má álykta að biðin á Gardermoen sé, líkt og á Kastrup, mun styttri en í Keflavík.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúa Isavia, sem rekur flugvöllinn í Keflavík, segir að biðin þar sé oftar en ekki minni en geti líka verið lengri. Hún segir Keflavíkurflugvöll hafa sett sér markmið um að biðtíminn verði ekki lengri en 7-10 mínútur. En nýlega var bætt við hliðum í vopnaleitina til að koma til móts við aukna umferð í sumar.

Sérstakt fjölskylduhlið

Í Kaupmannahöfn hefur biðin við öryggisleitina minnkað jafnt og þétt síðustu ár. Meðal annars með tilkomu sérstakra hliða fyrir fjölskyldur sem stytta biðina fyrir þá sem ferðast með börn. Túrista er ekki kunnugt um að fleiri flugvellir bjóði uppá þessa sérþjónustu en það væri óskandi ef aðstandendur Keflavíkurflugvallar myndu fylgja þessu frumkvæði dönsku starfsbræðra sinna.

NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Guðrúnar Helgadóttur
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Kastrup flugvöllur – Cph.dk