Samfélagsmiðlar

Ferðaminningar Guðrúnar Helgadóttur

Ferðataska sem hleypti lífi í fundarhöld á Gotlandi og fjölskylduferð í franska myllu er meðal þess sem Guðrún Helgadóttir rithöfundur og fyrrverandi forseti Alþingis minnist úr utanlandsferðum sínum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Ég var orðin liðlega tvítug þegar ég fór mína fyrstu ferð til útlanda. Það finnst víðförulum smábörnum í fjölskyldu minni hreint ótrúlegt eins og svo margt sem gerðist í „gamla daga“. En ég var eiginlega send til Edinborgar í Skotlandi þar sem bróðir minn og kona hans voru í námi og hafði nýlega fæðst dóttir. Um sama leyti veiktist mamman svo að allir höfðu miklar áhyggjur heima. Námslán voru engin og fjármálin því erfið og eina sambandið sem fólk hafði milli landa voru sendibréf sem voru viku á leiðinni. Ég var því send með vistir og varning. Ég var skelfingin uppmáluð alla leið vegna flughræðslu og angistar yfir örlögum litla stráksins míns sem ég skildi eftir heima ef eitthvað kæmi fyrir mig, svo að ég var varla sérlega skemmtilegur gestur. En allt fór þetta vel og seinna bjó ég sjálf í tvö ár í þessari yndislegu borg og leið þá snöggtum betur.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Skemmtilegasta utanlandsferð mín er tvímælalaust afmælisferð árið 2005, en þá leigðum við, börn mín og fjölskyldur þeirra, gamla hnetumyllu í Commissey í Búrgundarhéraðinu í Frakklandi. Við vorum þá tuttugu talsins, en síðan hafa þrjú lítil líf bæst við. Þarna áttum við átta ógleymanlega daga, og erum við ævinlega þakklát fólkinu sem leigði okkur og eru raunar íslensk. Ég vona að þau eigi þennan stað ennþá. Börnin sem fæddust eftir ferðina góðu eru verulega leið yfir að hafa ekki farið með þegar myndirnar úr ferðinni eru skoðaðar.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Versta utanlandsferðin mín var fundarferð til Visby á Gotlandi. Þegar ég beið eftir töskunni minni í flugstöðinni var mér borinn risastór plastpoki, útataður í hvítri málningu, og mér tjáð að inni í þessum ósköpum væri taskan mín. Hún þyrfti að fara í kemtvätt sögðu Svíarnir. Vildi ég ekki gera svo vel að fylla út eyðublað með umsókn þar um. En nú var dönskum kollegum mínum nóg boðið og aldagamall pirringur út í nágrannaþjóðina braust út. Málið endaði með því að íslenska sendiráðið í Stokkhólmi var kallað til og birtist með flottustu ferðatösku sem ég hef nokkurn tíma eignast og helstu nauðsynjavöru og það var ekki talað meira um þurrhreinsunina. Þetta hleypti reyndar fjöri í annars heldur leiðinlegan fund.

Besta máltíðin í útlöndum:
Besti matur sem ég hef borðað í útlöndum var nýr aspargus í smjörsósu í boði sem norski þingforsetinn og góður vinur minn Jo Benkow hélt mér í veitingastað uppi á Holmenkollen eitt ægifagurt ágústkvöld. Maturinn og fegurðin runnu saman í eitt þetta kvöld.
Flestar mínar fjölmörgu utanlandsferðir hafa verið vinnuferðir vegna þingstarfa í nærfellt tuttugu ár, flestar skemmtilegar og minnistæðar og vegna þeirra hef ég eignast marga góða vini í hópi kollega innlendra sem erlendra,  óháð stjórnmálaskoðunum.

Tek alltaf með mér í ferðalagið:
Með mér hefur ævinlega verið bók til að lesa í hótelherberginu og blóm hef ég ævinlega keypt til að hafa þar. Þetta tvennt er mér lífsnauðsyn heima sem erlendis

Draumafríið:
Hvar sem er í Noregi um hásumarið. Hann er fallegasta land í heimi. Og Borgundarhólmur kemur líka til greina. Eftir árin mín öll í Norðurlandaráði er ég auk þess sannfærð um að Norðurlöndin séu sá hluti hnattarins sem hýsir fólk er nálgast það að teljast siðmenntað. Og það er frekar notalegt.

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …