Ferðaminningar Svandísar Svavarsdóttur

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, leggur uppúr því að smakka á mat heimamanna þegar hún ferðast. Hér segir hún frá ferðalögum sínum til annarra landa.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Þá fór ég með foreldrum mínum til Austur-Berlínar þar sem pabbi var í námi. Ég man nú sossum engin smáatriði frá þeirri ferð en man eftir útlenskunni og framandleikanum enda var ég bara á fjórða ári.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Ennþá finnst mér ferð okkar Torfa, mannsins míns, um Spán sumarið 1996 eftirminnilegust. Allt var nýtt og áhugavert, við fórum víða, nutum landsins, matar og drykkjar, landslags og menningar. Ógleymanlega fjölbreytt og svo miklu meira en sá Spánn sem oftast ratar í auglýsingabæklingana.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Það er nú sennilega ferðin sem til stóð að fara en var aldrei farin. Ég var semsé á leið til Ungverjalands um Kaupmannahöfn en það hafði farist fyrir að láta vita af því að Kaupmannahafnarfluginu hafði verið breytt og það flutt svo hastarlega fram á daginn að fyrir lá að ég myndi missa af fluginu til Búdapest. Þarna stóð ég á Leifsstöð með farangur og ferðaplön, dröslaðist aftur í bílinn og þurfti að afmelda mig á fundinn í Ungverjalandi.

Tek alltaf með í fríið:
Sólarvörn, passann, ferðabækur, samt sem minnst af þyngslum og óþarfa. Bjartsýni og gleði.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:
Þegar ég reyndi að prútta við sleipan sölumann í Pamplóna í gegnum manninn minn sem er spænskumælandi en hafði engan áhuga á prúttinu. Kannski frekar eftirminnilegt en vandræðalegt.  

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Mér finnst alltaf spennandi að smakka mat að hætti heimamanna. Fjölbreyttan og ferskan helst.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
París er alltaf ný og alltaf ólgandi en líka stöðug, þrungin sögu og menningu.

Draumafríið:
Langur, langur tími með fólkinu mínu og utan þjónustusvæðis!

TENGDAR GREINAR: Ferðaminningar Guðrúnar Helgadóttur
TILBOÐ: Berlín: Hótelíbúðir í Mitte hverfinu- 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista