Fleiri ítalskar borgir skattleggja ferðamenn

Yfirvöld í Flórens og Feneyjum ætla að fylgja fordæmi Rómarbúa og leggja sérstakan skatt á hótelgesti.

Frá því í ársbyrjun hafa hóteleigendur í Róm þurft að rukka hvern einasta gest aukalega um þrjár evrur fyrir hverja nótt. Par sem gistir í borginni í þrjár nætur þarf því að borga aukalega 18 evrur eða tæpar þrjú þúsund íslenskar krónur. Gjaldið rennur í borgarsjóð en yfirvöld réttlættu þessa nýju skattheimtu með því að lofa að nota tekjurnar til að bæta sorphirðu og að gera borgina þægilegri fyrir ferðamenn.

Frá og með næstu mánaðarmótum verður samskonar skattur lagður á gesti í Flórens og í Feneyjum eru ráðamenn að velta fyrir sér einhverskonar ferðamannaskatti samkvæmt frétt Berlingske.

Í Róm er þessi sérstaki skattur rukkaður í lok dvalar og er ekki innifalinn í hótelverðinu sem fæst uppgefið á heimasíðum gististaðanna eða á hótelleitarsíðum.

NÝJAR GREINAR: Allt að þrefalt lengri bið í Keflavík en á Kastrup
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: dichohecho (Creative Commons)