Eins til fimm stjörnu herbergi á sama hótelinu

Stjörnukerfi hótelgeirans hefur endanlega verið ruglað með Lloyd hótelinu í Amsterdam.

Kátir eins til fimm stjörnu hótelgestir í matsalnum.
Það er liðin tíð að ferðamenn taki stjörnur hótela alvarlega enda hefur einkunnagjöfin verið í tilvistarkreppu í fjölda mörg ár.

Sum hótel kæra sig til dæmis ekki um stjörnur og svo er önnur sem lifa á fornri frægð og standa í dag engan vegin undir einkunnunum sem þau fengu fyrir löngu síðan.

Forsvarsmenn Lloyd hótelsins í Amsterdam gera svo lítið úr þessu öllu saman með því að segjast vera gististaður þar sem aðstaðan er eins til fimm stjörnu.

Reyndar hafa þeir talsvert til síns máls því herbergin á hótelinu spanna næstum því allan skalann. Þannig er flygill á einu fimm stjörnu herberginu en á eins stjörnu herbergjunum er baðaðstaðan fram á gangi. Verðið á gistingunni er því æði misjafnt, eða frá 95 evrum og uppí 300.

Það eru 117 herbergi á Lloyds og flest eru þau algjörlega sér á báti enda voru nokkrir ólíkir hönnuðir fengnir til að innrétta þessa nítíu ára gömlu byggingu uppá nýtt þegar núverandi eigendur tóku við henni.

Lloyd hótelið stendur við höfnina og með sporvagni tekur fimm mínútur að komast þangað frá aðallestarstöðinni.

Heimasíða Lloyd.

NÝJAR GREINAR: Hallirnar í heimahéraði Jóakims prins

Myndir: Yamandu Ross og Rob´t Hart Photography, Lloyd hotel