Stundvísitala: Ekkert flug Iceland Express á tíma í gær

Ekkert flug á vegum Iceland Express fór í loftið eða lenti á réttum tíma í gær. Að jafnaði var seinkunin 81 mínúta. Meðalseinkunin hjá Icelandair var rúmar þrjár mínútur.

Töluverð umræða hefur verið um stundvísi flugfélaganna í kjölfar fréttar Fréttablaðsins í gær um slæman árangur Iceland Express í þessum málum í fyrra. Opinber gögn um hversu vel flugfélögum tekst að halda áætlun eru takmörkuð og þó finna megi ágætis upplýsingar á vefjum eins og Flightstats þá vantar þar inn mörg flug Iceland Express og Astraeus, félagsins sem flýgur fyrir hönd Express.

Túristi reiknaði því út frá heimasíðu Keflavíkurflugvallar hversu mikill munur var á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak í gær, 21. júní. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá voru fimmtán mínútur dregnar af öllum seinkunum sem voru meira en stundarfjórðungur. Flug sem voru á áætlun, fóru eða komu fyrr en reiknað var með eða seinkaði aðeins um fimmtán mínútur eða minna fengu gildið núll.

Niðurstöðurnar eru svo teknar saman í það sem við köllum Stundvísitölu Túrista og sýnir hún meðaltals seinkun dagsins hjá hverju flugfélagi fyrir sig. Bæði komur og brottfarir voru teknar með í reikninginn. Ætlunin er að taka saman þessa Stundvísitölu reglulega næstu misseri enda er það mikið hagsmunamál fyrir ferðafólk og ekki síður flugfélögin sjálf að vita hversu vel þau halda áætlun.

Helstu niðurstöður gærdagsins voru þær að flugum Iceland Express seinkaði að jafnaði um 81 mínútu og ekkert flug fór á réttum tíma. Hjá Icelandair komu eða fóru vélarnar í 85 prósent tilvika á réttum tíma og seinkunin yfir daginn var að jafnaði um þrjár mínútur. Öll flug erlendu flugfélaganna fóru á réttum tíma.

Stundvísitala Túrista 21.júní 2011:

Icelandair: 3,2
Iceland Express: 81,2

NÝJAR GREINAR: Sýna vetrarflugi til Íslands ekki áhuga
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: bsktcase /Creatice Commons