Sýna vetrarflugi til Íslands ekki áhuga

Ísland er aðeins sumaráfangastaður í augum erlendra flugfélaga.

Nú í sumar halda átta erlend flugfélög úti millilandaflugi til og frá Íslandi en aðeins eitt þeirra, SAS, flýgur hingað yfir vetrartímann. Hið bandaríska Delta Airlines hafði uppi áform um að fljúga hingað til loka október en þeim plönun var breytt nokkrum dögum eftir fyrsta flugið til Keflavíkur og mun félagið hætta Íslandsfluginu í byrjun september.

Það verða því Icelandair, Iceland Express og SAS sem sjá um millilandaflugið í vetur, að ógleymdu flugi Flugfélags Íslands til Færeyja og Grænlands. SAS flýgur aðeins beint héðan til Oslóar.

Átak í að fjölga túristum utan háannatíma

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga kom fram að hún hyggðist ráðast í stórátak til að fjölga erlendum ferðamönnum utan hefðbundins ferðamannatíma. Útfærsla á því átaki hefur ekki verið kynnt en gera má ráð fyrir því að hluti af verkefninu sé að fá íslensku flugfélögin til að fjölga ferðum og áfangastöðum og einnig að gera vetrarferðir hingað fýsilegri kost fyrir erlend flugfélög. Til dæmis með betri kjörum á Keflavíkurflugvelli en Túristi hefur áður sagt frá því að innan Isavia er verið að kanna grundvöll fyrir því að gefa þeim félögum afslætti sem ráðgera að bjóða uppá flug hingað frá nýjum stöðum.

Hvað gerir Delta næsta sumar?

Það var í ágúst í fyrra sem Delta opinberaði áætlanir sínar um flug til Íslands nú í sumar og líklega kemur í ljós í byrjun hausts hvort félagið ætli sér að halda fluginu áfram á næsta ári. En sumaráætlanir flugfélaganna liggja oftast fyrir í september og október þó gerðar séu á þeim breytingar allt fram á síðustu stundu.

TENGDAR GREINAR: Íhuga að gefa afslátt til að fjölga flugleiðum
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Wikicommons