Danskt eyjahopp

Úti fyrir ströndum Jótlands liggur fjöldi eyja sem gaman er að skoða.

Baðstrendurnar, maturinn, fuglalífið, húsin og bílaleysið er meðal þess sem laða ferðamenn að eyjunum úti fyrir ströndum Jótlands. Ferjusiglingar eru líka jafn sjálfsagður hlutur á þessum slóðum og reiðhjól og því er lítið mál að sigla frá þessu eina fastalandi Dana og út í eyjar.

Þessar þrjár njóta mikillar hylli jafnt hjá heimamönnum sem og ferðafólki:

Samsø – Kartöflurnar frá Samsø er landsþekktar í Danmörku enda eru bændurnir þar ávallt fyrstir til að setja nýja uppskeru á markað á sumrin. Matarkúltúrinn er hátt skrifaður og er eitt helsta aðdráttarafl þessarar fallegu eyju. Ferjan fer frá Hou á Jótlandi en líka frá Kalundborg á Sjálandi.

Rømø – Vindurinn blæs stundum hressilega á þessari tíundu stærstu eyju Danmerkur. Strendur hennar njóta því mikilla vinsælda meðal áhugafólks um seglbretti og flugdreka og þar eru haldin móti í þessum sportgreinum. Aðrir strandgestir geta notið þess að láta hafgoluna kæla sig niður á meðan þeir sleikja sólina. Út í Rømø er hægt að keyra en þaðan má líka sigla til þýsku eyjurnar Sylt.

Fanø – Nýlega voru Danir hvattir til að velja fallegasta smáþorp landsins og fyrir valinu varð bærinn Sønderho á eyjunni Fanø. Þessi fyrrum útgerðarbær þykir það mikið augnaryndi að ekkert annað pláss í Danmörku kemst með tærnar sem þessi hefur hælana. Ferðamenn geta sér þó margt annað til dundurs gert á Fanø en að dást af þessari fallegu byggð. Ferjan út í eyju fer frá Esbjerg.

Þessi grein er skrifuð í samstarfi við:

 

Tengdar greinar: Hallirnar í heimahéraði Jóakims prins

Myndir: Danmark Media Center