Enn reynir fólk að reykja um borð

Aldarfjórðungi eftir að reykingabann var sett hjá allflestum flugfélögum reyna örfáir farþegar ennþá að kveikja sér í.

Í hverjum mánuði þarf einn reykingarmaður, að jafnaði, að svara til saka hjá lögreglunni í Osló eftir að hafa reynt að fá sér smók um borð í flugvél. Haft er eftir talsmanni SAS í Aftenposten að þeir sem þetta reyni laumi sér inn á klósett og taki þar í sundur reykskynjara áður en kveikt er í. Einnig eru dæmi um að fólk hafi hent glóandi sígarettustubbum ofan í klósett eða ruslafötur sem sé stórhættulegt enda geti kviknað í út frá stubbunum.

Eins og sennilega allir flugfarþegar vita bíða þeirra sem reykja um borð há sekt og jafnvel tugthúsvist.

NÝJAR GREINAR: Hvað kostar að senda póstkort heim?
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Mykl Roventine