Ferðaminningar Mikaels Torfasonar

Það var ekki nóg fyrir Mikael Torfason rithöfund að fara í öll fötin í bakpokanum til að halda á sér hita í sleðaferð á Grænlandi. Hann segir hér frá ferðalögum sínum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:
Við fórum til Kanarí þegar ég var enn í leikskóla. Ég man eftir að hafa séð þykjustunni indjánaþorp og fengið martröð um að ég hlypi um gangana á hótelinu án þess að vita hvar mitt herbergi væri.

Best heppnaða utanlandsferðin:
Ég var í sex mánuði á sólarströnd í Portúgal. Við bjuggum þar í bænum Tavira í góðu yfirlæti.

Verst heppnaða utanlandsferðin:
Ég reyndi einu sinni að flytja til útlanda þegar ég var rúmlega tvítugur að deyja úr óhamingju að mér fannst. Vann í ferðatívolíi á Jótlandi en gafst upp eftir viku og flúði aftur heim.

Tek alltaf með í fríið:
Ekkert sérstakt nema vegabréf og peninga.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum
Ja, mér brá einu sinni rosalega í myrkrinu á Grænlandi fyrir nokkrum árum þegar ég hafði leigt hús þar til að skrifa bók. Þannig var að ég fékk far með danskri herflugvél og við lentum á ísnum við Scoresby Sund og ég hafði bókað far með veiðimanni á hundasleða til Ittoqqortoormiit. Ég hafði ekki alveg gert mér grein fyrir kuldanum og myrkrinu og að ferðalagið væri um sólarhringur á hundasleða. Veiðimaðurinn tók öll föt upp úr bakpokanum mínum og skipaði mér að klæðast í öll fötin sem ég var með. Svo fékk hann lánaðan XXL kuldagalla hjá vinum sínum í flugstöðinni og við héldum af stað. Mér hefur aldrei verið jafn kalt, hvorki fyrr né síðar.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:
Æi, mér er eitthvað svo nákvæmlega sama um mat. Ég fékk Kentucky Fried Chicken einu sinni tíu ára í London og man enn eftir þeirri máltíð og lyktinni af blautþurrkunum sem fylgdu.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:
Köln. Já, ég hef alltaf haft ánægju af þeirri borg og auðvitað þar sem ég hef búið um tíma eins og Kaupmannahöfn eða Los Angeles.

Draumafríið:
Ég hef aldrei skilið hugmyndina um frí þótt ég hafi gaman að því að drösla krökkunum í útilegur og fíflast með þeim í útlöndum. Besta fríið er bara heima með bók og ég hef aldrei litið á ferðalög sem frí og hvort eð er á maður helst ekki að ferðast fyrir minna en þrjá mánuði til að fá eitthvað frí út úr ferðalaginu.