Hótelherbergi fyrir þá sem hrjóta

Hótelkeðja gerir tilraun til að tryggja öllum gestunum góðan nætursvefn. Líka þeim sem ferðast með fólki sem hrýtur.

Meira en helmingur allra giftra Breta missir svefn vegna þess að maki þeirra hrýtur hátt og þrír af hverjum tíu þar í landi íhuga skilnað vegna þessa vandamáls. Hroturnar hafa líka neikvæð áhrif á fríið hjá meira en helmingi paranna samkvæmt könnun sem forsvarsmenn hótelkeðjunnar Crowne Plaza hafa ákveðið að taka mjög alvarlega.

Þess vegna bjóða þeir nú uppá sérstaklega útbúin herbergi sem eiga að minnka líkurnar á hrotum og minnka hávaðann sem þær valda. Veggirnir eru því klæddir með hljóðdempandi veggfóðri og dýnan í rúminu er þannig í laginu að fólk er líklegra til að sofa á hliðinni. Enda eru hrotunar alla jafna verstar þegar legið er á bakinu.

Tilraunir á þessum herbergjum munu standa yfir á nokkrum Crowne Plaza hótelum í Evrópu í sumar, þar á meðal í París, Brussel, London, Hamborg og Kaupmannahöfn samkvæmt frétt Berlingske.

NÝJAR GREINAR: Stundvísitölur: Frammistaða Iceland Express skánar
Hotels.com: Sumarútsala – bókaðu gistingu með 40% afslætti

Mynd: Crowne Plaza