Íslendingar við konunglegt brúðkaup í Bútan

Það verður hátíð í bæ þegar íslenskt ferðafólk mætir til Bútan í október.

Þeir eru örfáir hér á landi sem heimsótt hafa smáríkið Bútan í Himanlæjafjöllum. Ekki er það bara fjarlægðinni um að kenna því landið hefur verið nánast lokað fyrir útlendingum og heimsóknir ferðamanna eru ennþá takmarkaðar. Í október gefst Íslendingum einstakt færi á að heimsækja landið því þá efnir ferðaskrifstofan Óríental til fyrstu hópferðar Íslendinga þangað. Það vill svo skemmtilega til að á sama tíma mun hin ungi konungur þeirra í Bútan, Jigme Khesar Namgyel Wangchuck, ganga í hjónaband og má búast við töluverðum hátíðarhöldum í landinu á þeim tíma.

Mælanleg hamingja

Íbúar Bútan eru strangtrúaðir búddistar og þar hafa trúarbrögðin varðveist vel enda hefur áreitið utan frá verið lítið þó landið sé mitt á milli tveggja fjölmennustu ríkja heims, Kína og Indlands. Og öfugt við nágrannaríkin þá eru yfirvöld í Bútan ekki svo upptekin af hagtölum og mæla heldur hversu hátt hlutfall íbúanna er hamingjusamur. Samkvæmt nýjustu tölum þá er það hvorki meira né minna en 97 prósent.

Hvort sjónvarps- og internetleysið hafi þar áhrif skal ósagt látið en það eru ekki meira en tíu ár síðan að þessir tímaþjófar voru fyrst settir í samband í Bútan. Sígarettur spilla heldur ekki heilsu þjóðarinnar því þær eru ólöglegar í landinu.

Landkönnunarleiðangur Óríental um fjallasali þessa dularfulla konungsríkis hefst 11. október og kostar 687.000 á mann. Á heimasíðu ferðaskrifstofunnar má finna lýsingu á þessari einstöku reisu.

NÝJAR GREINAR: 5 bestu ódýru veitingastaðirnir í Kaupmannahöfn
Hotels.com: Sumarútsala – bókaðu gistingu með 40% afslætti

Myndir: Wikicommons og Konunglega skrifstofan í Bútan