Nektarskannar heyra brátt sögunni til

Mótmæli og kærur eru ástæðan fyrir því að bandarísk yfirvöld ætla að hætta að taka nektarmyndar af farþegum.

Hinir umdeildu líkamsskannar sem kallað geta fram nektarmyndir af fólki og hafa verið nýttir við öryggiseftirlit á flugstöðvum eiga ekki langa framtíð fyrir höndum. Alla vega ekki í Bandaríkjunum þar sem þeir hafa nú verið í notkun frá því á síðasta ári. Flugfarþegar vestanhafs eru nefnilega allt annað en ánægðir með þetta nýjasta tæki tollvarða og hafa mótmælt því kröftuglega. Málið hefur meira að segja ratað inn á borð Barack Obama, forseta.

Samkvæmt fréttum Politiken ætla flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum nú að breyta tækjunum þannig að nektarmyndatökunnar heyra sögunni til og í staðinn fá tollverðir á skjáinn hjá sér óskýra mynd af þeim einstaklingum sem beðnir verða að ganga í gegnum tækið.

Ekki er ólíklegt að yfirvöld annars staðar í heiminum fylgi fordæmi Bandaríkjamanna en nektarskanna er að finna víða.

NÝJAR GREINAR: 10 vinsælustu ferðamannalöndin
TILBOÐ: Kaupmannahöfn: Hotel Sct Thomas – 10% afsláttur fyrir lesendur Túrista

Mynd: Transportation Security Administration (TSA)