Stundvísitölur: Frammistaða Iceland Express skánar

klukka

Rúmlega þriðja hver vél Iceland Express, til og frá Keflavík, hélt áætlun í vikunni.

Meðalseinkun á brottförum Icelandair fyrstu sjö dagana í júlí var tæpar fjórar mínútur en 40 mínútur hjá Iceland Express. Þetta er töluverð bæting hjá báðum félögum því á tímabilinu 21. til 30. júní biðu farþegar Icelandair í tæpar tíu mínútur að meðaltali og þeir sem áttu bókað með Iceland Express þurftu alla jafna að sætta sig við klukkutíma seinkun. Þá fóru aðeins sautján prósent af vélum þess síðarnefnda í loftið á réttum tíma en núna er hlutfallið 40 prósent. Brottfarir Icelandair frá Keflavík stóðust áætlun í átta af hverjum tíu skiptum.

Þess ber að geta að frammistaða Iceland Express batnaði mjög mikið um miðja þessa viku og voru um það bil sextíu prósent af ferðum þess frá landinu á tíma.

Lággjaldaflugfélög geta verið stundvís

Í auglýsingu Iceland Express í síðustu viku bað félagið viðskiptavini sína afsökunar á slakri frammistöðu sinni júní. Þar kom jafnframt fram að markmið fyrirtækisins væri að þrjú af hverjum fjórum flugum þess væru á tíma og því bætt við að þetta væri metnaðarfullt markmið fyrir „sparnaðarflugfélag“. En þegar stundvísi sambærilegra flugfélaga er skoðuð á vef Flightstats kemur í ljós að hið norska Norwegian stenst áætlun í 90 prósent tilvika og Cimber Sterling, German Wings og Airberlin ná öll að fara í loftið á auglýstum tíma í meira en 8 af hverjum 10 skiptum. Hefðbundin flugfélög eins og SAS, KLM og Finnair standa þessum lággjaldaflugfélögum að baki. Lauslegur samanburður Túrista á stundvísi erlendra flugfélaga leiðir því í ljós að lággjaldaflugfélög eru oftar en ekki betri til að halda áætlun en önnur.

Hér eru Stundvísitölur Túrista fyrir fyrstu sjö dagana í júlí

Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma
Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma
Meðalbið alls
Icelandair 80% (var 66%) 3,7mín (var 9.6) 73% (var 60%) 5,5mín (var 12,2) 76% (var 63%) 4,6mín (var 10,9)
Iceland Express 39% (var 17%) 40,3mín (var 59,4) 29% (var 17%) 41,4mín (var 60,9) 34% (var 17%) 40,9mín (var 60,2)

Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar af öllum seinkunum sem eru meira en stundarfjórðungur.

TENGDAR GREINAR: 17 prósent ferða á áætlun síðustu 10 daga
Hotels.com: Sumarútsala – bókaðu gistingu með 40% afslætti

Mynd: Gilderic/Creative Commons