Stundvísitölur: Litlar framfarir hjá Iceland Express

Þriðju vikuna í röð stenst aðeins þriðja hver ferð Iceland Express áætlun. Meðalbið eftir brottförum félagsins er þó minni en áður.

Á meðan ferðir Icelandair, til og frá landinu, standast áætlun í átta af hverjum tíu tilvikum þá komast vélar Iceland Express í loftið á réttum tíma í rúmlega þriðjungi tilfella.

Brottförum Iceland Express frá Keflavík seinkaði að jafnaði um hálftíma síðustu sjö daga sem er töluverð framför frá vikunum á undan. Hjá Icelandair var biðin 10 mínútur að jafnaði en 83% af ferðum félagsins frá Leifsstöð fóru á réttum tíma.

Þetta sýna Stundvísitölur Túrista sem reiknaðar hafa verið út daglega undanfarin mánuð. Á síðasta þriðjungi júnímánaðar voru aðeins 17 prósent af ferðum Iceland Express á tíma en hlutfallið hefur verið um það bil tvöfalt hærra í júlí. Félagið er þó enn langt frá þeim markmiðum sem það hefur sett sér um að þrjár af hverjum fjórum ferðum séu á áætlun. Ef það tekst þá er félagið álíka stundvíst og nokkur af helstu lággjaldarflugfélögum Evrópu.

Stundvísitölur Túrista fyrir 15. til 21. júlí (tölur í sviga eru niðurstöður síðustu viku)

Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma
Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma
Meðalbið alls
Icelandair 83% (var 78%) 10mín (var 7) 78% (var 73%) 6 mín (var 8) 80% (var 76%) 8 mín (var 8)
Iceland Express 39% (var 32%) 30mín (var 48) 35% (var 32%) 56 mín (var 41) 37% (var 32%) 43 mín (var 44)

Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar af öllum seinkunum sem eru meira en stundarfjórðungur.

NÝJAR GREINAR: Íslendingar við konunglegt brúðkaup í Bútan
Hotels.com: Sumarútsala – bókaðu gistingu með 40% afslætti

Mynd: Túristi